Sveitarstjórn

24.10.2011 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 230

Mánudaginn 24. október 2011 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps. Allir hreppsnefndarmenn mættir nema Fjóla Stefánsdóttir en í hennar stað sat Heimir Ásgeirsson fundinn. Einnig sat sveitarstjóri fundinn sem hófst kl 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Fundargerð fræðslu- og æskulýðsnefndar frá 5. október 2011. 
Fundargerðin samþykkt.

2. Fundargerð atvinnu- og þróunarnefndar frá 19. október 2011. 
Fundargerðin samþykkt.

3. Ályktanir aðalfundar Eyþings 2011. 
Lagðar fram.

4. Bréf frá Norðurorku dags. 5. október 2011.
Samkvæmt lánasamningi milli Norðurorku og Grýtubakkahrepps vegna
10.000.000 kr. víkjandi láns til Norðurorku vegna Reykjaveitu er lánið
óafturkræft ef arðsemi Reykjaveitu er minni en  6,5 % . Nú liggur fyrir að
arðsemi Reykjaveitu miðað við 1. ágúst 2011 er minni en 6,5% og fellur
því greiðsluskylda Norðurorku niður. Sveitarstjóra falið að tilkynna
Sænesi ehf. um niðurstöðuna en Sænes veitti Grýtubakkahreppi
víkjandi lán sömu upphæðar með sömu skilmálum.

5. Bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga dags. 29. september 2011.
Er verið að vekja athygli á kvennafrídeginum 24. október nk. Lagt fram.

6. Aðalskipulag Grýtubakkahrepps:
Tillaga  að aðalskipulagi var auglýst 17. ágúst 2011. Frestur til
athugasemda var til 28. september 2011. Tvær athugasemdir bárust:
Önnur frá Þórsteini Jóhannessyni, Bárðartjörn. Hann er að mótmæla
íbúðarhúsabyggð sunnan Gamla skóla og Grenivíkurskóla, reitur
136 íb, á skipulagi en hann er með áðurnefndan reit á erfðafestu en
Grýtubakkahreppur á landið. Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps mun
ganga frá uppsögn samnings og bótum fyrir ræktun og girðingar og
kaupum á erfðafesturéttindum tímanlega áður en þörf verður fyrir
byggingarland. Athugasemdin gefur ekki tilefni til breytinga á
skipulagsgögnum.
Hin athugasemdin er frá Benedikt Sveinssyni, Ártúni. Hann er að gera
grein fyrir áformum um frekari uppbyggingu ferðaþjónustu í Ártúni í
Grýtubakkahreppi og leggur til að gert verði ráð fyrir henni í
aðalskipulagi. Skv. ákvæðum í kafla 4.12.2 í aðalskipulagi
Grýtubakkahrepps 2010-2022 mega sérhæfðar byggingar fyrir aðra
atvinnustarfsemi en landbúnað vera allt að 2.000 m2 án
sérmerkingar í aðalskipulagi. Umrædd áform eru innan þeirra marka
og nægir því að gera  grein fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu og
framkvæmdum í deiliskipulagi. Athugasemdin gefur því ekki tilefni til
breytinga á skipulagsgögnum.
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps samþykkir tillögu að aðalskipulagi
Grýtubakkahrepps og felur sveitarstjóra að senda tillöguna  til
Skipulagsstofnunar  til staðfestingar skv. 32. gr. skipulagslaga
nr. 123/2010.

7. Endurskoðun fjárhagsáætlunar Grýtubakkahrepps 2011
Helstu niðurstöður eru eftirfarandi í þús. kr.
                                       A hluti         Samstæða
Tekjur 
                         240.215       298.479
Gjöld                             246.906       299.575
Fjármagnsliðir               7.243           -5.039
Rekstrarniðurstaða        552           -6.135
Fjárfestingar               31.100          34.100

Endurskoðuð fjárhagsáætlun samþykkt.
    
8. Forsendur fjárhagsáætlunar Grýtubakkahrepps 2012.
 
Rætt um forsendur fyrir gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012.

9. Fulltrúar frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar komu á fundinn. 
Rætt um að efla samstarf AFE við aðildarsveitarfélög.
Velt upp ýmsum hugmyndum varðandi atvinnusköpun í sveitarfélaginu.

10. Fundur með þingmönnum.
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps er gefinn kostur á að hitta þingmenn
kjördæmisins nk. miðvikudag kl. 9:45.
Samþykkt að sveitarstjóri, oddviti og varaoddviti sæki fundinn.

11. Beiðni frá Vegagerðinni um framkvæmdaleyfi.
Beiðnin er um að vinna 4000-6000 m3 af malarslitlagsefni úr
Grefilsgili. Samþykkt að veita framkvæmdaleyfi að því tilskyldu
að gengið verði frá námunni með fullnægjandi hætti að
malarnámi loknu.

12. Leyfi fyrir gámavelli.
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps gefur leyfi fyrir sitt leyti að
útbúinn verði gámavöllur á svæði fyrir sunnan malarvöll
Magna og er það samkvæmt nýju aðalskipulagi Grýtubakkahrepps.

13. Tölvupóstur frá Helguhól ehf. dags. 20. október 2011.
Er verið að sækja um leyfi til að byggja íbúðarhús í landi Ness í
Grýtubakkahreppi samkvæmt meðfylgjandi afstöðumynd.
Sveitarstjórn samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

14. Bréf frá Fjörðungum ehf. dags. 21. október 2011.
Eru þeir að fara fram á að leiga á landi til rjúpnaveiða í Hvammslandi
verði endurskoðuð þar sem rjúpnaveiðitími hefur styst um helming.
Samþykkt að veita 50% afslátt á yfirstandandi ári.
Heimir, Guðný og Jóhann viku af fundi meðan þessi liður var ræddur.

15. Undirskriftalisti frá 12 íbúum Sunnuhlíðar
dags. 1. september 2011.

Fara þeir fram á að sett verði unnið efni í veginn, hann rykbundinn,
ræsi sem þarfnast lagfæringar verði löguð og settar verði vegstikur.
Sveitarstjórn þakkar ábendinguna og samþykkir að áfram verði unni
að lagfæringum á veginum.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 20:00.