Sveitarstjórn

18.02.2013 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 258

Mánudaginn 18. febrúara 2013 kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps. Allir sveitarstjórnarmenn mættir ásamt sveitarstjóra.

 Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Parhús, nýbygging og tillaga að lóð. Lögð fram ný tilboðsskrá frá Trégrip ehf. og drög að verksamningi. Einnig lögð fram tillaga að lóð að Höfðagötu 1. Tillaga að lóð samþykkt. Jafnframt samþykkt að fela sveitarstjóra að ganga frá samningi við Trégrip ehf. um byggingu parhúss að Höfðagötu 1.

2. Drög að siðareglum Grýtubakkahrepps. Síðari umræðu lokið.  Siðareglur fyrir Grýtubakkahrepp samþykktar.

3. Samningur varðandi þyrluskíðamennsku. Samþykkt að fela sveitarstjóra að ganga frá samningi við Bergmenn ehf. varðandi samning um þyrluskíðamennsku á landi í eigu sveitarfélagsins.

4. Leiga á landi. Sveitarstjóra falið að ganga frá samningum um leigu á beitarhólfum fyrir hesta.  Skilmálar og leigugjald skulu vera óbreytt frá fyrri samningum. Björn og Fjóla viku að fundi undir þessum lið.

5. Aðalfundur Veiðifélags Fjarðarár. Aðalfundurinn var kl. 16:00, 18. febrúar og fór Jóhann Ingólfsson með umboð Grýtubakkahrepps á fundinum en áður hafði verið leitað samþykkis í gegnum tölvupóst.

6. Frumvörp um stjórn fiskveiða.  Sveitarstjórn skorar á ríkistjórn Íslands að draga til baka fyrirliggjandi frumvarp um stjórn fiskveiða og geri fremur breytingar á gildandi lögum um veiðigjöld þannig að tryggt sé að starfandi útgerðir geti haldið áfram hlutverki sínu sem burðarásar í byggðalögum allt í kringum landið.

7. Bréf frá búfjáreftirlitsnefnd, dags. 7. febrúar 2013. Er verið að tilkynna um að nýtt frumvarp sem gerði ráð fyrir að Matvælastofnun tæki yfir allt búfjáreftirlit 1. janúar 2013 náði ekki fram að ganga. Því er ljóst að sveitarfélögin beri ábyrgð á búfjáreftirlitinu enn um sinn. Jafnframt lögð fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 og kostnaður Grýtubakkahrepps samkvæmt henni kr. 309.577-. Gert hafði verið ráð fyrir þessum kostnaði í fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps.  Sveitarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun vegna búfjáreftirlits fyrir sitt leyti.

8. Bréf frá Vegagerðinni dags. 29. janúar 2013. Fjallar bréfið um  niðurfellingu vega á vegaskrá. Lagt fram.

9. Bréf frá Fræðslu og forvörnum, dags. 8. febrúar 2013. Er verið að biðja um styrk að upphæð kr. 15.000,-. Erindinu hafnað.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:00.