Sveitarstjórnarfundur nr. 352

29.05.2017 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 352

Mánudaginn 29. maí 2017, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík.  Aðalfulltrúar allir mættir, einnig sat sveitarstjóri fundinn. 

Fundurinn hófst kl. 16:30.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1.  Skólaakstur næsta vetur.

            Núverandi samningur framlengdur um eitt ár.

2.  Bygging leiguíbúða.

            Fjóla og Margrét víkja af  fundi undir þessum lið. Grendarkynningu er lokið, án athugasemda. Ráðrík ehf hefur farið yfir fjárfestinguna m.t.t. fjárhags sveitarfélagsins samanber ákvæði sveitarstjórnarlaga, með jákvæðri niðurstöðu. Sveitarstjórn staðfestir fyrirliggjandi lóðaruppdrátt samkvæmt teikningu Verkís dags.12. maí 2017. Farið yfir verklýsingu og sveitarstjóra falið að ganga frá verksamningi á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

3.  Vinnuskóli 2017.

            Laun með orlofi vegna sumarsins 2017 verða þannig:

                        Dagvinna        Yfirvinna

            14 ára  kr. 711,35        kr. 1.201,19

            15 ára kr. 823,66        kr. 1.390,86

            16 ára kr. 1.216,78     kr. 2.054,68

            Launatafla v/vinnuskólans samþykkt.

4.  Fundargerð landbúnaðarnefndar dags. 28. maí 2017.

            Fundargerð lögð fram, þar segir m.a.:

Í ljósi góðra aðstæðna núna gerir Landbúnaðarnefnd það að tillögu sinni að afréttin verði opnuð 6. júní og leyfilegt verði að sleppa fé í ógirt heimalönd frá 1. júní. Leyfilegt verður að sleppa hrossum á afrétt frá og með 1. júlí.

            Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

5.  Erindi frá Björgunarsveitinni Ægi, umsókn um lóð, dags. 11. maí 2017.

            Sveitarstjóra falið að svara erindinu.

6.  Erindi frá Sóknarnefnd, varðar slátt á kirkjugarði, dags. 23. maí 2017.

            Erindið samþykkt.

Ásta F. Flosadóttir þurfti að yfirgefa fundinn eftir þennan lið.

7.  Frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða.

            Umsögn sveitarstjórnar:

            Almennt.

Frumvarpið gengur gegn stefnu Sambands íslenskra sveitarfélga um forræði sveitarfélaga í skipulagsmálum.

Mikill munur er á hvort verið er að skipuleggja úthafssvæði eða innfirði.  Þar sem svæðisskipulagsnefndir eru til staðar, t.d. í Eyjafirði, væri eðlilegt að hægt sé fela nefndinni hlutverk svæðisráðs við skipulag afmarkaðs svæðis, t.d. Eyjafjarðar, eftir atvikum með viðbótarmönnun frá ráðuneytum.  Einfalt væri að bæta þessum möguleika við lögin.

            2. gr.

Gildissvið laganna nær 30 metra inn fyrir stórstraumslóðlínu og gengur þar með inn á skipulagssvæði sveitarfélaga sem miðast við netalög.  Hætt er við að þetta geti skapað óvissu og flækt skipulagsmál þegar fram í sækir og væri eðlilegra að gildissvið laganna næði að netalögum, 115 m. utan stórstraumsfjöru, eins og skipulagssvæði þeirra. 

            5. gr.

Lokamálsgreinin hljóðar svo: “Samþykki meirihluta fulltrúa þarf til að mál sem eru til afgreiðslu í svæðisráði teljist samþykkt, þó þannig að allir fulltrúar ráðuneyta í svæðisráði séu samþykkir afgreiðslunni.”

Með síðari hluta málsgreinarinnar er virkur atkvæðisréttur í raun tekinn af fulltrúum sveitarfélagastigsins.  Gengur það þvert gegn anda laganna um samráð og samræmi við skipulag sveitarfélaga. 

Það er í raun fáheyrt að sett sé í lög að meirihluti atkvæða gildi við afgreiðslu mála, en jafnframt kveðið á um hverjir nefndarmanna skuli skipa þann meirihluta!  Verður að telja þetta ótrúlegt vantraust og virðingarleysi gagnvart sveitarstjórnarstiginu.  Ef Alþingi treystir sér ekki til að fella brott síðari hluta málsgreinarinnar væri hreinlegra að kalla fulltrúa sveitarfélagastigsins áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt, sem þeir eru þá í raun eins og frumvarpið er fram sett.

Að lokum er rétt að taka fram að sveitarstjórn telur mikla þörf á lögum um skipulag á sjó, ekki síður en á landi, en mikilvægt er að samræmi sé í lögum um skipulagsmál, og ekki sé hætta á mistúlkun eða árekstrum milli laga.

8.  Fjölís, samningur um afritun verndaðra verka, dags. 1. feb. 2017.

            Sveitarstjórn staðfestir samninginn.

9.  Fundargerð stjórnar Eyþings, dags. 15. maí 2017.

            Fundargerð lögð fram.

10.  Fundargerð stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga, dags. 19. maí 2017.

            Fundargerð lögð fram.

Fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl.20:28

Fundinn rituðu Ásta F. Flosadóttir og Margrét Melstað.