Sveitarstjórnarfundur nr. 434

17.05.2021 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 434

Mánudaginn 17. maí 2021, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík. Eftirtaldir sveitarstjórnarfulltrúar mættir; Fjóla V. Stefánsdóttir, Gunnar B. Pálsson og Gísli Gunnar Oddgeirsson. Sigrún Björnsdóttir og Heimir Ásgeirsson mættu í stað Margrétar Melstað og Haraldar Níelssonar sem voru fjarverandi. Einnig sat sveitarstjóri fundinn.

Fundurinn hófst kl. 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

  1. Kynning á endurskoðun Sóknaráætlunar 2020-2024, starfsmenn SSNE.

Rebekka Kristín Garðarsdóttir og Baldvin Valdemarsson fóru yfir endurskoðun sóknaráætlunar og ræddu við sveitarstjórn í fjarfundi.

  1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 30. apríl 2021.

Fundargerð lögð fram. Sveitarstjórn tekur heilshugar undir bókun um vanda hjúkrunarheimila í fundarlið nr. 7.

  1. Fundargerð stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga dags. 26. apríl 2021 og kynning ársreiknings 2020.

Fundargerð og ársreikningur lögð fram.

  1. Fundargerð stjórnar Markaðsstofu Norðurlands, dags. 4. maí 2021.

Fundargerð lögð fram. Sveitarstjórn tekur undir bókanir stjórnar, um Vörður – Merkisstaði Íslands og niðurskurð á fjárframlagi til markaðsstarfs Flugklasans 66N.

Sveitarstjórn telur að merkisstaðir kunni að leynast víða um land.

  1. Fundargerð stjórnar SSNE, dags. 5. maí 2021.

Fundargerð lögð fram.

  1. Fundargerð stjórnar Hafnasamlags Norðurlands, dags. 12. maí 2021.

Fundargerð lögð fram.

  1. Skipulagsmál; Höfði Lodge, deiliskipulag.

Athugasemdafrestur vegna deiliskipulagstillögu fyrir hótellóð á Skælu (Höfði Lodge) rann út 10. maí sl. og bárust erindi frá Norðurorku, Vegagerðinni, Umhverfisstofnun og Minjastofnun á auglýsingartímabili skipulagstillögunnar. Ekki eru gerðar efnislegar athugasemdir við auglýsta skipulagstillögu í erindunum.

Sveitarstjórn samþykkir auglýsta skipulagstillögu óbreytta skv. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að fullnusta gildistöku deiliskipulagsins.

  1. Boð á aðalfund Sparisjóðs Höfðhverfinga, haldinn 19. maí 2021.

Fjóla V. Stefánsdóttir oddviti fer með umboð sveitarfélagsins á fundinum.

  1. Boð á aðalfund Landskerfis bókasafna, haldinn 19. maí 2021.

Lagt fram.

  1. Stofnsamningur Hafnasamlags Norðurlands bs., uppfærsla, skv. erindi dags. 10. maí 2021.

Sveitarstjórn staðfestir uppfærslu á stofnsamningi og felur sveitarstjóra að undirrita uppfærðan stofnsamning.

  1. Norðurorka, ábyrgð vegna lántöku, erindi dags. 5. maí 2021.

Ákvörðun um veita einfalda ábyrgð, veðsetningu í tekjum til tryggingar ábyrgð og veiting umboðs til að undirrita lánasamning og taka að sér þær skuldbindingar sem greinir í lánsamningi vegna láns Norðurorku frá Lánasjóði sveitarfélaga:

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að veita einfalda ábyrgð og veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar í samræmi við hlutfall eignarhalds, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar láns Norðurorku hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 600.000.000-, til allt að 20 ára í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér. Ábyrgðin heldur gildi ef skilmálum lánasamnings er breytt til hagsbóta fyrir Norðurorku. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Nær samþykki sveitarstjórnar jafnframt til undirritunar lánasamnings og að sveitarfélagið beri þær skyldur sem þar greinir.

Eignarhlutur Grýtubakkahrepps í Norðurorku hf. er 0,1817% og er hlutdeild sveitarfélagsins í þessari ábyrgð því kr. 1,090,200,-.

Er lánið tekið til fjármögnunar á hitaveitu framkvæmdum sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006 og uppfyllir skilyrði um græna umgjörð Lánasjóðs sveitarfélaga.

Sveitarstjórnin skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Norðurorku hf. til að breyta ekki ákvæði samþykkta Norðurorku sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila.

Fari svo að sveitarfélagið selji eignarhlut í Norðurorku til annarra opinberra aðila, skuldbindur sveitarfélagið sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.

Jafnframt er Þresti Friðfinnssyni kt. 260861-2479, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Grýtubakkahrepps að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns og breytinga á skilmálum lánasamnings sem eru til hagsbóta fyrir Norðurorku.

  1. Erindi frá Samtökum grænkera, dags. 11. maí 2021.

Erindið lagt fram.

  1. Frá SSNE; Staða samstarfs sveitarfélaga í stafrænni þróun, dags. 5. maí 2021.

Lagt fram.

  1. Erindi frá Ástu Fönn Flosadóttur skólastjóra, uppsögn, dags. 2. maí 2021.

Skólastjóri hefur sagt starfi sínu lausu og kemur því ekki til starfa eftir námsleyfi 1. ágúst n.k. eins og vænst var.

Ásta tók við starfi skólastjóra Grenivíkurskóla 1. ágúst 2008. Á hennar starfstíma hefur Grenivíkurskóli þróast áfram með jákvæðum hætti, starfið verið faglegt og skólabragur allur til fyrirmyndar. Ásta ber hag nemenda mjög fyrir brjósti og er afar umhugað um velferð þeirra, ekki síst þeirra er hallari fæti standa.

Sveitarstjórn færir Ástu alúðarþakkir fyrir hennar störf og óskar henni velfarnaðar í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að auglýsa eftir skólastjóra í samráði við fræðslu- og æskulýðsnefnd.

 

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:20.

Þröstur Friðfinnsson ritaði fundargerð.