Sveitarstjórnarfundur nr. 481

05.06.2023 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 481

Mánudaginn 5. júní 2023, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík. Eftirtaldir sveitarstjórnarfulltrúar voru mættir; Gísli Gunnar Oddgeirsson, Þorgeir Rúnar Finnsson, Fjóla V. Stefánsdóttir, Gunnar B. Pálsson og Inga María Sigurbjörnsdóttir. Einnig sat sveitarstjóri fundinn.

Fundurinn hófst kl. 18:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

  1. Fundargerðir stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 26. maí og 2. júní 2023.

Fundargerðir lagðar fram.

  1. Fundargerð heilbrigðisnefndar Nl. Eystra, dags. 3. maí 2023.

Fundargerð lögð fram.

  1. Fundargerð landbúnaðar- og umhverfisnefndar, dags. 30. maí 2023.

Landbúnaðar- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að upprekstrardagur sé miðaður við 10. júní. Þá leggur nefndin einnig til að heimilt verði að sleppa fé í ógirt heimalönd og almenninga Grýtubakkahrepps 10. júní.

Bændur eru hvattir til að gæta hófs við upprekstur og sleppingar og láta vita sín á milli hvenær þeir hyggist fara með fé sitt, hvort heldur sem er til rekstrar eða keyrslu, svo ekki fari of margir á sama tíma.

Þá leggur nefndin til að leyfilegt verði að sleppa hrossum á afrétt frá og með 1. júlí og verða þau að vera komin af afrétt í síðasta lagi 31. ágúst.

Sveitarstjórn staðfestir tillögur nefndarinnar.

  1. Skipulagsmál, skipulagslýsing ferðaþjónustusvæðis, umsagnir.

Farið yfir umsagnir og hugmyndir sem fram komu við kynningu skipulags-lýsingarinnar. Skipulagsráðgjafi mun vinna áfram að gerð skipulagstillögu í samráði við skipulagsfulltrúa, sveitarstjóra og sveitarstjórn.

  1. Erindi frá Útgerðarminjasafninu á Grenivík, dags. 29. maí 2023.

Sveitarstjórn samþykkir að styrkja Útgerðarminjasafnið um 350.000 kr. Undanfarin ár hefur styrkupphæðin numið 100.000 kr., en í ljósi þess að safnið fékk ekki úthlutun úr Uppbyggingarsjóði í ár, var ákveðið að hækka styrkupphæðina að þessu sinni. Upphæðin rúmast innan fjárhagsáætlunar.

  1. Erindi frá HSÞ, v. rafræns skráningarkerfis fyrir aðildarfélög, dags. 1. júní 2023.

Erindi lagt fram. Afgreiðslu frestað.

  1. Erindi frá forsvarsmönnum umræðuhóps um lausagöngu búfjár, athugasemdir við minnisblað Sambands ísl. sveitarfélaga um málið, dags. 2. júní 2023.

Erindi lagt fram.

  1. Gatnagerð, lenging Lækjarvalla.

Kynntur uppdráttur götunnar og útboðsgögn sem Verkís hefur unnið. Sveitarstjóra falið að gera formlega verðkönnun hjá verktökum á grundvelli þeirra gagna.

  1. Málefni Reykjaveitu.

Sveitarstjóri og hluti sveitarstjórnar fundaði með forsvarsmönnum Norðurorku þann 31. maí sl. Fram kom á fundinum að forsvarsmenn Norðurorku telja arðsemi Reykjaveitu óviðunandi. Sveitarstjórn kom sínum sjónarmiðum á framfæri og bauð Norðurorku að koma og kynna stöðu veitunnar á íbúafundi í haust. Sveitarstjórn mun áfram stefna að því að húshitunarkostnaður í sveitarfélaginu fari á næstu árum lækkandi, í hlutfalli við húshitunarkostnað annars staðar á veitusvæði Norðurorku, og telur efnisleg rök standa til þess.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:47.

Fundargerð ritaði Þorgeir Rúnar Finnsson.