Sveitarstjórnarfundur nr. 502

24.06.2024 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 502

Mánudaginn 24. júní 2024, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík. Eftirtaldir sveitarstjórnarfulltrúar voru mættir; Gísli Gunnar Oddgeirsson, Fjóla V. Stefánsdóttir, Gunnar B. Pálsson, Inga María Sigurbjörnsdóttir og Sigrún Björnsdóttir sem mætti í fjarveru Þorgeirs Rúnars Finnssonar. Einnig sat sveitarstjóri fundinn.

Fundurinn hófst kl. 16:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

  1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 31. maí 2024.

Fundargerðin lögð fram.

  1. Fundargerð stjórnar SSNE, dags. 5. júní 2024.

Fundargerðin lögð fram.

  1. Fundargerð stjórnar Norðurorku, dags. 28. maí 2024.

Fundargerðin lögð fram.

Undir dagskrárlið 4 í fundargerðinni var erindi Grýtubakkahrepps frá 21. febrúar sl. varðandi gjaldskrá Reykjaveitu tekið fyrir og eftirfarandi bókun stjórnar samþykkt:

„Stjórn Norðurorku telur gildandi gjaldskrá Reykjaveitu eðlilega miðað við fyrirliggjandi forsendur. Mikilvægt er að afkoma veitunnar standi undir rekstri og viðhaldskostnaði til framtíðar. Gjaldskrá Reykjaveitu hefur í tvígang verið hækkuð mun minna en hitaveitan á Akureyri, auk þess sem hún hefur fylgt verðlagi í samræmi við það fyrirkomulag sem lá fyrir við stofnun veitunnar.“

Sveitarstjórn er ósammála þeim forsendum sem stjórn Norðurorku leggur til grundvallar þeirri ákvörðun sinni að hafna með öllu erindi Grýtubakkahrepps og harmar ósveigjanlega afstöðu stjórnarinnar. Sveitarstjórn telur einsýnt að rekstur Reykjaveitu sé mun arðsamari en ráð var fyrir gert í upphafi, enda hafi þá ekki verið gert ráð fyrir að Reykjaveita bæri þunga af sameiginlegum kostnaði við rekstur Norðurorku. Hefði enda ekki verið svo ef Reykjaveita hefði ekki verið lögð. Sveitarstjórn telur það ekki samræmast markmiðum og ímynd Norðurorku að reka dýrustu hitaveitu á landinu. Sveitarstjórn telur öll rök standa til þess að gjaldskrá Reykjaveitu hækki áfram mun minna en aðalveitunnar á komandi misserum og mun hafa málið áfram á dagskrá sinni.

  1. Fundargerð aðalfundar Greiðrar leiðar ehf., dags. 13. júní 2024.

Fundargerðin lögð fram.

  1. Fundargerð 72. afgreiðslufundar SBE, dags. 7. júní 2024.

Fundargerðin lögð fram.

  1. Fundargerð landbúnaðar- og umhverfisnefndar, dags. 19. júní 2024.

Fundargerðin lögð fram.

Í fundargerðinni er eftirfarandi tillaga um upprekstrardaga:

„Landbúnaðar- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að upprekstrardagur sé miðaður við 22. júní. Þá leggur nefndin einnig til að heimilt verði að sleppa fé í ógirt heimalönd og almenninga Grýtubakkahrepps 22. júní.

Í ljósi sérstakra aðstæðna hvað varðar snjóalög og veðurfar eru bændur eindregið hvattir til að gæta hófs við upprekstur og sleppingar, fylgjast með ástandi gróðurs og vega, og láta vita sín á milli hvenær þeir hyggist fara með fé sitt, hvort heldur sem er til rekstrar eða keyrslu, svo ekki fari of margir á sama tíma.

Þá leggur nefndin til að leyfilegt verði að sleppa hrossum á afrétt frá og með 6. júlí og verða þau að vera komin af afrétt í síðasta lagi 31. ágúst.“

Sveitarstjórn staðfestir tillögu nefndarinnar. (Áður samþykkt með tölvupóstum allra sveitarstjórnarfulltrúa.)

  1. Ársskýrsla landskjörstjórnar.

Ársskýrslan lögð fram til kynningar.

  1. Frá Jafnréttisstofu, ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga vegna bils milli fæðingarorlofs og inntöku barna á leikskóla, dags. 19. júní 2024.

Almennt er ekki bil í Grýtubakkahreppi þar sem börn eru tekin inn á leikskóla við 12 mánaða aldur.

  1. Frá Drift EA, samstarf um nýsköpun, kynning, dags. 21. júní 2024.

Lagt fram til kynningar.

  1. Erindi frá Markaðsstofu Norðurlands vegna Flugklasans Air 66N, dags. 13. júní 2024.

Erindið lagt fram. Sveitarstjórn telur starf Flugklasans mikilvægt en tekur ekki afstöðu til þess hvaða leið á helst að fara á þessu stigi.

  1. Erindi frá Greiðri leið ehf., hlutafjáraukning, dags. 19. júní 2024.

Sveitarstjórn samþykkir að taka þátt í hlutafjáraukningunni að sínum hluta, eða sem nemur kr. 1.016,-.

  1. Samningur um sameiginlegt þjónustusvæði um málefni fatlaðra, síðari umræða.

Umræðu frestað til næsta fundar.

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:56.

Fundargerð ritaði Þröstur Friðfinnsson.