- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Á sunnudaginn var réttað í glænýrri Gljúfurárrétt. Fjölmenni var mætt til réttar og sjö til átta þúsund fjár, en ágætlega smalaðist þrátt fyrir afar misjafnt veður, að sögn Þórarins Inga Péturssonar fjallskilastjóra.
Áður en réttarstörfin sjálf hófust var stutt víglsluathöfn. Sveitarstjóri lagði áherslu á mikilvægi sauðfjárbúskapar fyrir sveitarfélagið sem og landið og færði landbúnaðarnefnd og sauðfjárbændum þakkir fyrir gríðarlegt sjálfboðaliðastarf við byggingu réttarinnar. Einnig færði hann Guðmundi Björnssyni í Fagrabæ viðurkenningu fyrir frábært starf, en hann teiknaði réttina og stýrði byggingarframkvæmdum frá upphafi til enda.
Inga Siglaugsdóttir gaf fánastöng til minningar um sr. Pétur Þórarinsson í Laufási og við athöfnina drógu börn þeirra hjóna, Þórarinn, Jón Helgi og Heiða, íslenska fánann að húni. Stöngin stendur á voldugum steini í miðjum almenningnum.
Sr. Bolli Pétur Bollason flutti blessunarorð og bað að gæfa fylgdi starfi bænda til framtíðar og réttin yrði þeim notadrjúg. Einnig minntist hann gömlu réttarinnar með þakklæti og þeirrar sögu sem hún geymir. Viðstaddir sungu saman „Vel er mætt til vinafundar“ og „Blessuð sértu sveitin mín“ og var þetta afar hátíðleg og jákvæð samvera.
Réttin reyndist alveg ljómandi vel og er aðstaðan mikil bylting fyrir bæði fólk og fé. Vel fer um féð í safnhólfinu og fín vinnuaðstaða í og við réttina til að sinna réttarstörfum. Mjög góð aðkoma er að réttinni og næg bílastæði.
Réttin er glæsilegt mannvirki og byggð af metnaði og framsýni. Hún er áberandi í sínu umhverfi og mun verða staðarprýði til lengri tíma.
Sveitarfélagið greiddi fyrir efni og aðkeypta aðstoð, en sauðfjárbændur og þeirra lið vann ötullega að byggingunni og reis hún fullbúin á undraskömmum tíma. Útlagður kostnaður er töluvert undir áætlun og má hrósa bændum alveg sérstaklega fyrir, þetta er glæsilegt verk og skulu þeim færðar bestu hamingjuóskir. Fleiri myndir hér