Aðgerðir Grýtubakkahrepps - Viðspyrnusjóður

Vegna afleiðinga heimsfaraldurs Covid-19, hefur Grýtubakkahreppur gripið til ýmissa aðgerða sem haft hafa áhrif á þjónustu og þjónustustig, allt frá 2. mars og fram á þennan dag.  Yfirlit yfir þær helstu er:

  • Takmarkanir heimsókna á Grenilund og síðan heimsóknarbann.
  • Hópaskipting starfsfólks á Grenilundi og fleiri aðgerðir til varnar heimilisfólki.
  • Auglýst var eftir fólki í bakvarðarsveit fyrir Grenilund við mjög góðar undirtektir, fyrir það er þakkað kærlega.
  • Breytingar á starfi leikskóla og niðurfelling gjalda vegna barna sem tekin voru alveg heim.
  • Alger uppstokkun á skólastarfi í Grenivíkurskóla, hópaskipting nemenda og starfsfólks, skólaskyldu aflétt, niðurfelling gjalda fyrir þjónustu sem er skert, fjarkennsla að hluta og fleiri aðgerðir.
  • Skrifstofu hreppsins lokað fyrir utanaðkomandi umferð.
  • Takmarkanir á fjölda í líkamsrækt og sundlaug, síðan alger lokun á hvoru tveggja.
  • Inneignir á aðgangskortum verða framlengdar þegar opnað verður aftur, korthafar hafi sambandi við starfsmenn Íþróttamiðstöðvar.
  • Lokun bókasafns.
  • Boðið var upp á einn frían snjómokstur á innkeyrslum fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega.
  • Boðið var upp á að færa 2 - 3 gjalddaga fasteignagjalda rekstraraðila aftur fyrir.

Þetta hefur allt reynt nokkuð á samfélagið og ber að þakka bæði starfsmönnum og íbúum fyrir þolinmæði og þrautseigju á þessum sérstöku tímum.  Einnig er lofsvert framtak fyrirtækja sem hafa boðið upp á nýjungar í þjónustu, t.d. heimsendingar. Þá hefur mikið mætt á heilsugæslu og sr. Gunnar hefur farið nýjar leiðir í þjónustu með hugvekjum og helgistundum á Facebook, auk þess að sinna sálgæslu og fl. yfir netið.

Þó allt stefni í rétta átt og veirufaraldurinn sé vonandi að ganga yfir, má ekki slaka á vörnum og allir þurfa áfram að huga að eigin háttum og umgengni.  Þá virðast áhrifin á ferðalög og þar með rekstrargrundvöll ferðaþjónustufyrirtækja, ætla að verða enn meiri en óttast var og jafnvel um mun lengri tíma einnig.  Staðan í þeirri grein er sér á parti og svo alvarleg að við þarf að bregðast nú þegar.

Viðspyrnusjóður

Sveitarstjórn hefur á umliðnum vikum rætt ítrekað um stöðuna og um mögulegar leiðir til að aðstoða ferðaþjónustufyrirtæki í hreppnum, í þeirri von að þau komist heilu og höldnu í gegnum niðursveifluna.  Afrakstur þeirrar umræðu er stofnun viðspyrnusjóðs í samstarfi við Sænes ehf.  Hann hefur tvíþætt hlutverk, að styðja við ferðaþjónustufyrirtæki með beinum hætti og síðan að kynna sveitarfélagið þegar faraldur er að baki, bæði sem spennandi ferðamannastað og sem góðan búsetukost.

Ferðaþjónustufyrirtæki eru hvött til að kynna sér vel reglur um sjóðinn sem er að finna hér, og sækja um innan tilskilins frests sem er til 15. maí.

Vinna sveitarstjórnar miðar öll að því að samfélagið okkar, fólk og fyrirtæki, komi sem sterkast í gegnum þetta og við sjáum samfélagið eflast áfram í framhaldinu.  Sveitarstjórn mun áfram ræða stöðuna og framundan eru vonandi skemmtilegri tímar þar sem daglegt líf færist smátt og smátt í fyrra horf.

Gleðilegt sumar.