- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Eins og alkunna er tóku ný lög um úrgangsmál gildi 1. janúar 2023. Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hefur lagt áherslu á að leita hagkvæmustu leiða við að uppfylla skilyrði laganna og nýta kerfið sem fyrir er eins og hægt hefur verið. Á fundi sínum á mánudaginn bókaði sveitarstjórn eftirfarandi:
Í ljósi þess að Úrvinnslusjóður er hættur að greiða fyrir endurvinnsluefnin plast og pappír, nema efnunum sé safnað aðskildum við húsvegg, ákveður sveitarstjórn að nauðsynlegt sé að bæta við þriðju tunnunni við hvert heimili. Sveitarfélagið mun útvega nýjar tunnur til íbúa án endurgjalds. Stefnt er að því að þriggja tunnu kerfi verði komið í gagnið með haustinu.
Skoðaðar hafa verið ýmsar leiðir til að uppfylla skyldur laganna, t.d. að fá tvískiptar tunnur, eða að láta safna inni einum flokki og halda aðskildum við hirðingu, jafnvel taka plast annan mánuðinn og pappír hinn til skiptis. Niðurstaðan varð að hagkvæmast og einfaldast í framkvæmd væri að bæta við einni tunnu við hvert heimili fyrir endurvinnsluefni. Verður þá sett plast í aðra og pappír í hina. Jafnframt verður þá hægt að safna endurvinnsluefnunum helmingi sjaldnar, eða á átta vikna fresti. Engar breytingar verða varðandi urðurnarsorp og lífrænan úrgang, hvorki á ílátum eða tíðni losunar.
Til viðbótar er nú stefnt að uppsetningu lítillar grenndarstöðvar á bak við Jónsabúð. Þar verður hægt að skila smærri málmi og gleri, s.s. dósum og krukkum. Einnig minni rafhlöðum. Áhaldahúsið mun sinna stöðinni, skipta út körum og færa á gámasvæðið, með því móti þarf ekki að kaupa neina meiri þjónustu af þjónustuaðila en verið hefur. Stöðin ætti að verða komin í gagnið ekki síðar en í september.
Allar tunnur, bæði þær sem fyrir eru og þær sem bætast við verða merktar upp á nýtt í samræmi við nýjan staðal. Áætlað er að dreifingu á viðbótar tunnum og endurmerkingum verði lokið fyrir 1. október og þá hefjist hirðing skv. framansögðu. Viðbótartunnurnar verða notaðar tunnur sem við endurnýtum, en tunnur falla nú til í þúsundavís við tunnuskipti hjá sveitarfélögum, m.a. á Akureyri.
Með ofangreindum aðgerðum ætti kostnaður sveitarfélagsins við sorphirðu ekki að hækka, jafnvel að lækka í raun.
Það er von sveitarstjórnar að íbúar taki breytingunum af jákvæðni og haldi áfram að vera til fyrirmyndar við flokkun og frágang úrgangs. Þeir munu á móti njóta þess að ekki þarf að hækka sorphirðugjöld eins mikið og ella, en þau eru í dag með þeim lægstu á landinu.