- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Um áramót taka gildi nokkuð viðamiklar breytingar á lögum um úrgangsmál. Markmið stjórnvalda er annars vegar að samræma flokkun úrgangs og endurvinnsluefna um land allt, en einnig að breyta heildar kostnaðarhlutdeild þannig að greiðslur verði betur tengdar við magn úrgangs frá hverjum og einum. Hér hefur sveitarfélagið greitt verulegan hluta kostnaðar við málaflokkinn úr sameiginlegum sjóðum, það verður ekki í boði mikið lengur þó við munum breyta þessu í áföngum.
Ekki er enn ljóst hvernig endanleg útfærsla sorphirðunnar verður, t.d. hvort heimilisúrgangur verður vigtaður frá hverri íbúð, eða hvort miðað verður við rúmmál og/eða val um mismunandi tíðni hirðingar. Hitt er ljóst að íbúar hér hafa verið duglegir að flokka og gert það vel, það mun auðvelda okkur framhaldið og ekki síður að ná sem mestri hagkvæmni í hirðingu og meðhöndlun úrgangs.
T.d. mun Úrvinnslusjóður endurgreiða sveitarfélögum að hluta eða jafnvel að miklu leyti kostnað við hirðingu og umsýslu einhverra flokka endurvinnsluefna. Eftir því sem íbúar standa sig betur í flokkun, þá mun minni kostnaður lenda á þeim sjálfum er fram í sækir.
Fyrsta breyting sem íbúar verða varir við er að frá áramótunum má aðeins setja pappír, blöð og plastumbúðir í endurvinnslutunnuna við húsvegg. Öðrum efnum, s.s. málmum, gleri og rafhlöðum ber áfram að safna, en slíku skal nú skilað á gámasvæðið. Mögulega mun móttaka breytast enn frekar á næstu misserum, jafnvel á miðju næsta ári ef samræming gengur vel hjá ríki og sveitarfélögum.
Sorphirðudagatalið verður gefið út um áramót með sama sniði og verið hefur. Sorpgjöld verða einnig lögð á fasteignir með sama sniði og áður, við álagningu fasteignagjalda nú í upphafi nýs árs. Á það við bæði einstaklinga og lögaðila. Sorpgjöldin hækka í flestum flokkum um þriðjung milli ára, eða 33,33%. Gjöld á fyrirtæki hækka í einhverjum tilvikum meira, en flokkun rekstraraðila í gjaldflokka verður jafnframt yfirfarin út frá samhengi við raunkostnað.
Þá eru reglur um viðbótargáma í endurskoðun, að öllum líkindum mun sveitarfélagið hætta að greiða fyrir viðbótargáma. Hins vegar verður ekki tekið gjald af því sem er skilað á gámasvæðið. Einstaklingar og rekstraraðilar geta því sparað sér umtalsvert með góðri flokkun og útsjónarsemi varðandi umfang og nýtingu viðbótargáma. Sá sparnaður nýtist samfélaginu sem heild.
Þessi breyting hjá okkur er skref í átt að því að uppfylla skyldur laganna, en þau miða við að flokkað verði í fjóra flokka við húsvegg, þ.e. pappír, plastumbúðir, lífrænan úrgang og loks úrgang til urðunar. Við erum þá komin vel áleiðis að þessu marki, þó aðskilja þurfi plastið og pappírinn hjá verktaka, eða einu skrefi aftar í ferlinu.
Hér hefur flokkun úrgangs lengi verið í fremstu röð á landsvísu, við stefnum ótrauð að því að verða áfram í fremstu röð og hemja með því eins og hægt er þær kostnaðarhækkanir sem annars munu ganga yfir málaflokkinn á næstu árum.