Covid staðan - pistill sóttvarnarlæknis

Covid herjar nú sem aldrei fyrr og hefur síðustu 2 til 3 vikur farið hratt um okkar samfélag.  Skóli, leikskóli og nú síðast Grenilundur hafa fundið hressilega fyrir því.  Sem betur fer án mjög alvarlegra veikinda hingað til og við vonum að svo verði áfram.

Hér á eftir er nýr pistill frá sóttvarnarlækni;

Staða COVID-19 faraldurs 10. mars 2022.

Útbreiðsla COVID-19 er áfram gríðarlega mikil og hefur áhrif víða í samfélaginu þótt reglur um sóttkví og einangrun hafi verið felldar niður. Greiningum hefur ekki fjölgað frá því sem var meðan reglur um einangrun voru enn í gildi, en innlögnum á sjúkrahús hefur fjölgað verulega. Hlutfall jákvæðra hraðprófa sem nú eru notuð til staðfestingar er svipað og hlutfall jákvæðra PCR sýna áður, en vegna nokkuð lakara næmis hraðprófanna er þetta vísbending um að útbreiðslan sé líklega meiri en áður.

Embætti landlæknis tekur vikulega út stöðuna á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum landsins. Staðan hefur þyngst viku fyrir viku og ekki hefur verið meira álag vegna COVID-19 frá því að faraldurinn hófst fyrir tveimur árum. Það skýrist annars vegar af útbreiddu samfélagslegu smiti með útbreiddum veikindum og fjölda innlagna vegna COVID-19 og hins vegar mikils fjölda starfsmanna sem er frá vinnu vegna veikinda. Álagið er mikið á öllum stofnunum ekki síst á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri, sem og á Heilbrigðisstofnunum Vesturlands, Norðurlands og Austurlands. Þá er staðan mjög erfið á mörgum hjúkrunarheimilum. Fram kemur á reglulegum fundum með fulltrúum þessara stofnana að almennt leggja heilbrigðisstarfsmenn og stjórnendur mikið á sig til að geta sinnt nauðsynlegri heilbrigðisstarfsemi og ber að þakka það. Staðan er þó viðkvæm og má lítið út af bregða.

Mikilvægt er að við vinnum áfram saman að því að hefta útbreiðsluna eins og við getum þótt samfélagsaðgerðir stjórnvalda hafi verið felldar niður. Jafnvel þótt alvarleg veikindi komi fram hjá lægra hlutfalli en áður, m.a. vegna útbreiddra bólusetninga, þá geta alvarleg veikindi komið fram á öllum aldri og jafnvel hjá hraustum, bólusettum einstaklingum. Þegar útbreiðslan er orðin eins mikil og raun ber vitni verður meiri fjöldi en áður alvarlega veikur og dauðsföllum fjölgar þrátt fyrir að hlutfallið af heildarfjölda smitaðra sé lægra en t.d. í delta bylgju eða áður en bóluefni komu fram.

Persónulegar sóttvarnir eru áhöldin sem við höfum til að hafa áhrif á útbreiðsluna:

  • Áfram er æskilegt að þeir sem greinast með COVID-19 haldi sig frá öðrum eins og kostur er í a.m.k. 5 daga eða svo lengi sem hiti og/eða veruleg kvefeinkenni eða hálsbólga eru til staðar.
  • Þegar umgengni við aðra er óhjákvæmileg er rétt að smitaðir haldi sig í sem mestri fjarlægð frá öðrum, noti grímu og gæti að handhreinsun og þrifum á umhverfi eftir því sem við á.
  • Allir ættu að gæta að persónubundnum sóttvörnum í fjölmenni.
    • Því ekki nota grímu í matvöruverslunum, almenningssamgöngum, á viðburðum þar sem koma saman stórir hópar þótt skiltin séu horfin víða?
    • Því ekki hreinsa hendur áður en þú tekur í innkaupakerruna og þegar þú ert að ganga út úr versluninni með innkaupin?
    • Því ekki nota allt rýmið í fundarherberginu eða veislusalnum?
  • Allir ættu að gæta sérstaklega vel að persónubundnum sóttvörnum í umgengni við aldraða og aðra viðkæma einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum vegna COVID-19:
    • Forðast alla umgengni við viðkvæma einstaklinga ef einkenni eru til staðar, nota grímu ef umgengni er óhjákvæmileg, vanda handhreinsun og halda þeirri fjarlægð sem aðstæður leyfa hverju sinni.
    • Takmarka fjölda sem er í nánum samskiptum við viðkvæma hverju sinni, vanda handhreinsun, halda fjarlægð og nota grímu í návígi eftir því sem kostur er jafnvel þótt einkenni séu ekki til staðar, á meðan útbreiðslan er eins og nú er.

Verjum okkur, verjum fjölskyldur okkar og ástvini, við þurfum ekki tilskipun frá stjórnvöldum því við erum öll almannavarnir.

Landlæknir

Sóttvarnalæknir