- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Á aðalsafnaðarfundi Laufás- og Grenivíkursóknar, sem haldinn var þann 31. maí s.l tilkynnti hann Eddi (Ernst Hermann Ingólfsson) að hann hefði ákveðið að láta gott heita í sambandi við störf sín fyrir Grenivíkurkirkjugarð.
Eddi hefur unnið mjög mikilvægt starf fyrir kirkjugarðinn í u.þ.b. hálfa öld. Hann byrjaði að taka grafir með skófluna eina að vopni árið 1953 og hélt því áfram þar til vélknúin tæki tóku við greftrinum, sem var í kringum síðustu aldamót.
Auk þess hefur Eddi séð um að koma fyrir rafvæddum krossum á leiði fyrir jólin. Erfitt verður að fylla í skarðið hvað það starf varðar þar sem útfærslan á leiðslum og lögn þeirra um garðinn hefur verið þannig að enginn skilur kerfið nema Eddi. Á fundinum lét hann þau orð falla að hann teldi rétt að breyta til og að krossarnir yrðu lýstir upp með rafhlöðum í framtíðinni.
Eddi hefur unnið óeigingjarnt starf fyrir kirkjuna og allt hefur þetta verið sjálfboðastarf. Í þakklætisskyni færði sóknarnefnd honum mynd af Grenivíkurkirkju að gjöf.
Mynd: Valgerður Sverrisdóttir formaður sóknarnefndar færir Edda mynd af Grenivíkurkirkju sem þakklætisvott fyrir óeigingjörn störf í þágu sóknarinnar.