- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Þriðjudagskvöldið 28. janúar var haldinn íbúafundur á Grenivík með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgögnu og sveitarstjórnarráðherra. Milli 120 og 130 manns mættu á fundinn, en umræðuefnið var þingsályktunartillaga um málefni sveitarfélaga og 1000 íbúa lágmark.
Gríðarleg samstaða var á fundinum meðal íbúa og fékk ráðherra staðgott nesti með sér af fundinum um hug þeirra og sjónarmið. Hann kvikaði þó hvergi í sínum málflutningi sem fékk dræmar undirtektir fundarmanna.
Í upphafi fundar voru honum afhent mótmæli íbúa gegn lögþvinguðum sameiningum, en nokkrir íbúar höfðu staðið fyrir undirskriftasöfnun. Eftirfarandi texti var á skjalinu sem hafði legið frammi í Jónsabúð frá áramótum, eða nokkru áður en ráðherra þekktist heimboð sveitarstjórnar sem hún sendi í september s.l.:
Áskorun og mótmæli
Við undirritaðir kosningabærir íbúar í Grýtubakkahreppi, mótmælum harðlega þeim áformum að lögfesta lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga við 1000, og svipta okkur þannig kosningarétti og sjórnarskrárvörðum sjálfsákvörðunarrétti.
Við höfum ekki séð nein þau rök sem halda, en rök þurfa að vera ansi sterk fyrir slíkri aðgerð. Við skorum á ráðherra sveitarstjórnarmála að koma til fundar við okkur íbúa í Grýtubakkahreppi hið fyrsta þar sem málið verði útskýrt og krufið til mergjar.
Undir skjalið rituðu 186 íbúar en til samanburðar þá kusu 193 í sveitarstjórnarkosningum 2018.
Einnig má lesa um fundinn í frétt á vef RÚV hér.