Framkvæmdafréttir

Börnin una sér vel á Krummafæti, nýjar rólur vekja lukku.
Börnin una sér vel á Krummafæti, nýjar rólur vekja lukku.

Eins og áður er komið fram, eru miklar framkvæmdir í sumar á Grenivík.

Lokið er viðgerðum á Grenilundi, skipt var um þakrennur og steypt stétt með hitalögnum sunnan og vestan við húsið.  Hækka þurfti lóðina upp að nýju stéttinni og er hún nú óðum að byrja að grænka, en sáð var í hana.

Gammli Skóli var málaður að utan, einnig var þakið málað.  Húsið er því orðið til prýði aftur þar sem það stendur og vakir yfir þorpinu, áberandi sem fyrr.

Á leikskólanum Krummafæti var eitt herbergi dúklagt og rólusvæði endurnýjað.  Sett var nýtt öryggisundirlag á rólusvæðið og bætt við tveim ungbarnarólum.

Nú er unnið við að endurnýja vatnsinntak í Grenivíkurskóla en það er fyrirbyggjandi viðhald, enda var inntakið komið til ára sinna.  Einnig er vinna við skólalóð í fullum gangi, en ákveðið var að flýta aðeins framkvæmdum frá því sem áður var áformað og reyna að klára þennan áfanga á lóðinni sem mest fyrir veturinnn.  Verður spennandi að sjá þróun lóðarinnar á næstu vikum.

Svo styttist í færslu bensínstöðvar og loks lengingu Lækjarvalla um rúma 100 metra. 

Það er skemmst frá því að segja að sótt hefur verið um allar nýju lóðirnar við Lækjarvelli, 8 talsins, undir fjögur raðhús.  Áformað er að byggja þar alls 19 íbúðir sem létta vonandi verulega á miklum húsnæðisskorti sem verið hefur.  Þá er hafin eða að hefjast bygging á þó nokkrum einbýlishúsum á Grenivík.  Einnig styttist nú í að 5 íbúðir verði tilbúnar í raðhúsinu við Höfðagötu.

Ef öll plön ganga eftir, má því ætla að lokið verði við yfir 30 íbúðir á næsstu tveim árum eða svo, eru þó starfsmannahús við Hótelið ekki meðtalin, en þau eru fullbúin fyrir nokkru.  Vinna við Hótelbygginguna er á fullu og nú er fyrsta skipið með húseiningum í hótelið væntanlegt til Akureyrar á næstu dögum.  Byggingin fer því að taka á sig endanlega mynd á næstu vikum og mánuðum.

Erfitt hefur verið að manna störf hér á staðnum í seinni tíð og nú bráðvantar t.d. starfsfólk á hjúkrunarheimilið Grenilund.  Vonandi léttist það með tilkomu nýrra íbúða og í leiðinni mun íbúum í hreppnum fjölga töluvert sem er fagnaðarefni.