Fréttir af framkvæmdum

Grenivík
Grenivík

Eins og íbúar og gestir verða glöggt varir við, eru miklar framkvæmdir í gangi á og við Grenivík.  Verður svo í sumar og líklega næstu misseri.  Hér verður drepið á nokkrar, íbúum og öðrum til fróðleiks, bæði framkvæmdir einkaaðila og sveitarfélagsins.

Hjólastígar.

Höfði Lodge vinnur nú að gerð hjólastíga í Höfðanum.  Stígagerð er unnin í samráði við sveitarfélagið og verða stígarnir opnir öllum þegar þeir verða tilbúnir.  Áfram verður unnið að stígagerð í fjöllum hér í kring þegar lokið verður við verkið í Höfðanum og gilda mun hið sama, stígar verða opnir almenningi þó Höfði Lodge muni nýta þá fyrir sína starfsemi.

Áhersla er lögð á að gera vandaða stíga sem þjóni vel til framtíðar.  Jafnframt er viðmið að leggja þá fallega í landið með lágmarks raski, lyng og annar gróður verður færður til í könntum svo fari sem allra best.  Þá er miðað við að sýn frá þorpinu spillist sem minnst, þ.e. að stígar skeri ekki í augu í þeim hlíðum sem að þorpinu snúa.  Það er von okkar að þessi vinna takist vel og verði bæði gestum og heimamönnum til ánægju, hjólandi sem gangandi.  Það tekur alltaf nokkurn tíma fyrir svona rask að jafna sig og gróa, því þarf að sýna skilning og kannski smá þolinmæði.

Grenilundur.

Nú er verið að ljúka við viðgerðir á þakrennum sem voru orðnar ónýtar.  Það er nokkurt rask þar sem þær voru innfelldar og sérsniðnar á húsið.

Einnig er verið að steypa stétt með hitalögnum þar sem áður var óupphituð hellulögn, baka til við húsið.  Það mun auka öryggi og bæta lífsgæði íbúa, sem starfsfólks.

Grenivíkurskóli.

Í sumar verður farið í fyrsta áfanga að endurbótum á lóð skólans.  Það er langþráð verkefni sem mun taka tvö til þrjú ár að klára.

Leikskóli.

Meðan leikskólinn lokar í sumar, verður unnið við endurbætur á lóð, sett inn nýtt undirlag á rólusvæði og svæðið uppfært.  Þetta er öryggismál og verður auk þess til að fegra og bæta lóðina.

Bensínstöð N1.

Eftir miðjan mánuðinn verður farið í að skipta um tanka stöðvarinnar og í leiðinn i verða dælurnar færðar til.  Þær munu fjarlægjast húsið og auka þannig rými á baklóð Grýtu.  Jafnframt verður skipulagi lóðar breytt aðeins og bílastæðum fjölgað.  Þetta mun bæta aðgengi t.d. að veitingahúsinu og auðvelda umferð um baklóðina t.d. að lager verslunar.  Er von okkar að þetta heppnist vel og gagnist bæði rekstraraðilum í húsinu og gestum.  Síðar verður væntanlega auglýst hvernig opnun/lokun bensínstöðvarinnar verður háttað á framkvæmdatímanum.

Íbúðarbyggingar.

Góður skriður er á byggingu raðhússins við Höfðagötu.  Hafin er vinna við fleiri íbúðarhús og munu enn fleiri væntanlega bætast við í sumar, við Ægissíðu, Höfðagötu og Lækjarvelli.  Enn er eftirspurn eftir lóðum, enda hefur verið viðvarandi húsnæðisskortur og ný atvinnutækifæri munu kalla á enn meira húsnæði.  Þá er ógetið um byggingar í Höfðafit, íbúðarhús og fl.

Gatnagerð.

Stefnt er að lengingu Lækjarvalla að Kirkjuvegi.  Fyrri áfangi, jarðvegsskipti og lagnir er að fara í verðkönnunarferli hjá verktökum og ef viðunandi tilboð fæst í verkið er áformað að ljúka áfanganum fyrir veturinn.  Malbikun og lokafrágangur verður síðan á næsta ári.  Með lengingunni fást 8 nýjar lóðir sem eru skipulagðar hvort heldur sem er fyrir einbýlishús, parhús eða raðhús.  Ætla má að á þessum 8 lóðum geti því risið jafnvel 12 til 16 íbúðir á næstu árum.

Aðrar framkvæmdir.

Unnið er af krafti við nýbyggingu Pharmarctica, styttist í að vélasamstæður fari að koma inn, þó aðstæður í heiminum kunni að tefja eitthvað afhendingu þeirra að hluta.

Ekki síður er góður gangur í hótelbyggingunni, Höfði Lodge, en reikna má með að það verði tilbúið og opnað fyrir gestum á fyrri hluta næsta árs.

Þegar hefur verið skipt um hluta flotbryggju í höfninni, bætt við rafmagnstengla og festingar bryggju styrktar.

Ekki er víst að hér séu öllum framkvæmdum gerð skil, þó þetta sé orðinn þó nokkur listi!

Að lokum.

Öllum framkvæmdum fylgir umferð og rask.  Það mun reyna á íbúa og við verðum að sýna þolinmæði og skilning þó nærumhverfi okkar sé raskað og ónæði hljótist af um sinn.  Sérstaklega eru foreldrar minntir á að umferð vinnuvéla og stórra bifreiða fylgir hætta fyrir börnin og verðum við að leggjast öll á eitt og reyna að lágmarka slysahættu.  Brýnt er fyrir verktökum að fara varlega og virða hraðamörk á Grenivík, sem eru 30 km/klst.  Einnig ætlumst við til að umgengni um þorpið sé eins snyrtileg og kostur er, þannig að ásýnd okkar fallegu byggðar spillist ekki um of á framkvæmdatíma.