- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Eins og íbúar urðu rækilega varir við, varð rof hjá Reykjaveitu í síðustu viku. Gera þurfti við leka á stofnlögn sem var allnokkur aðgerð. Síðan tók töluverðan tíma að lofttæma lögnina á ný og koma fullum þrýstingi á allt kerfið, enda stofnlögn Reykjaveitu ein sú lengsta hjá hitaveitu á landinu.
Norðurorka vinnur nú að því að tengja dælustöð nálægt Hróarsstöðum í Fnjóskadal og vonast er til þess að verkinu ljúki fyrir jól. Dælustöðinni er ætlað að auka flutningsgetu veitunnar og tryggja að ekki verði þrýstingsfall á Grenivík á köldustu dögum. Talið er að með þessari aðgerð verði afhending trygg til næstu ára og að veitan sé tilbúin að taka við þeirri uppbyggingu á Grenivík sem framundan er.
Þá hefur Norðurorka sótt um framkvæmdaleyfi til að bora rannsóknarholur í Grýtubakkahreppi, með ströndinni neðan við og norðan Víkurskarðs. Reiknað er með að bora þó nokkrar holur en samþykkis landeigenda verður leitað á næstunni og síðan verður vonandi hægt að ráðast í verkið snemma á næsta ári.
Þekking á jarðhitakerfum Eyjafjarðarsvæðis hefur með árunum verið að aukast. Á seinni árum má nefna hverastrýturnar á botni fjarðarins, góðan árangur borana við Hjalteyri og nú síðast þann hita sem fannst í Vaðlaheiðargöngum. Því verður mjög spennandi að sjá hvort nýtanlegt heitt vatn finnst hér austan fjarðarins. Ekki þarf að fjölyrða um þann hag sem það getur fært svæðinu, enda myndi vatn á þessum slóðum nýtast bæði hér úteftir og mögulega inneftir einnig í framtíðinni.
Sveitarstjórn hefur undanfarin misseri átt í töluverðum samskiptum við Norðurorku og lagt á það áherslu að allt verði gert til að tryggja afhendingu heits vatns til framtíðar. Ekki síst til að undirbúa frekari vöxt samfélagsins og að vatnsskortur hamli ekki uppbyggingu. Því er ánægjulegt að sjá þessar framkvæmdir komast í gang og við hlökkum til að sjá árangurinn af þeim.