- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Guðs lukka var yfir Laufáskirkju í fyrradag þegar eldur varð laus og mátti ekki mörgum mínútum muna að verr færi. Almættið naut aðstoðar góðra forvarna sem skiptu sköpum við þessar aðstæður. Nýlegt brunaviðvörunarkerfi sannaði gildi sitt og má telja verulega óvíst um hver afdrif kirkjunnar hefðu orðið án þess.
Einnig hitti svo vel á að handbært slökkvitæki kom aðvífandi með skólabílnum og tókst með því að slökkva um hæl í þeim eldi sem illu heilli kviknaði. Má telja smámuni að þrífa, mála og skipta um teppi og tau, á móti því að missa hina 150 ára gömlu kirkju og muni hennar í heilu lagi eins og hæglega hefði getað gerst. Slökkvilið Grýtubakkahrepps var komið ótrúlega fljótt á staðinn, en sem betur fer reyndi ekki á það að þessu sinni.
Full ástæða er til þess að vekja sérstaklega athygli á gildi forvarna í tengslum við þennan atburð, ekki síst á þeim árstíma sem eldsvoðar eru því miður alltof algengir.
Eftirfarandi atriði ætti hver að kanna í sínum ranni og bæta úr þar sem upp á vantar:
Eru reykskynjarar til staðar og í lagi?
Er slökkvitæki til staðar og yfirfarið, eitt eða fleiri? Á heimilinu? Í bílnum?
Er eldvarnarteppi klárt?
Er umbúnaður logandi kerta öruggur og eftirlit með að ekki gleymist að slökkva á þeim?
Er umbúnaður jólaljósanna öruggur, hvergi yfirálag eða illa frá gengið? Athugið að vefja aldrei rafmagnssnúrum upp í hönk, og hafa síðan straum á, slíkt getur hæglega valdið íkveikju.
Með góðum forvörnum og réttum viðbrögðum má minnka verulega hættu á tjóni, þó sem betur fer reyni sjaldnast á. Þegar hins vegar á reynir eins og í Laufási, skipta þær algerlega sköpum, af því skulum við draga lærdóm.
Að lokum er rétt að færa alúðarþakkir þeim sem að björgun Laufáskirkju komu og vörðu ein okkar mestu menningarverðmæti í hreppnum.