- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Í dag voru undirritaðir samningar um veigamikla uppbyggingu á Grenivík.
Þeir Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, eigendur Viking Heliskiing og Scandic Guides, hafa ákveðið í samstarfi við erlenda fjárfesta að hefja byggingu á glæsilegu lúxus hóteli rétt við Grenivík í Eyjafirði. Hótelið, sem hefur fengið heitið Höfði Lodge, verður 5500 fm að stærð með 40 herbergjum, þar af fjórum svítum, ásamt bar, veitingastað, heilsurækt, funda- og ráðstefnusal og allri annarri þjónustu. Sérstök áhersla verður lögð á afþreyingar ferðamennsku fyrir hótelgesti og í boði verður meðal annars þyrluskíðun, fjallaskíðun, fjallaferðir, hjólaferðir, snjósleðaferðir, gönguferðir, hvalaskoðun, hestaferðir og öll almenn skot- og stangveiði.
Staðsetning Höfða Lodge er ævintýri líkast en hótelið mun rísa fyrir ofan 50 metra háan klettavegg á Þengilhöfða sem gengur út í austanverðan Eyjafjörðinn. Þaðan er útsýnið stórbrotið samspil milli hafs og fjalla, með óhindrað útsýni til mynnis Eyjafjarðar og yfir á Tröllaskagann.
Einungis er um 30 mínútna akstur til Akureyrar og mun Höfði Lodge því styðja enn frekar við uppbyggingu ferðaþjónustu á Norðurlandi sem og að stuðla að enn frekari þörf á auknu millilanda flugi um Akureyrarflugvöll.
Stefnt er að opnun Höfða Lodge í árslok 2022 og er áætlað að byggingaframkvæmdir hefjist næstkomandi vor.