Knappur rekstur en sterk staða og bjartar horfur

Grenivík
Grenivík

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps stafesti ársreikning fyrir áriö 2022 á fundi sínum í gær.

Rekstur sveitarfélagsins hefur verið frekar þröngur síðustu misserin og 17 milljóna tap varð á rekstri samstæðu sveitarfélagsins, A + B hluta, á árinu 2022. Það er raunar nokkur bati frá fyrra ári og jókst veltufé frá rekstri verulega. Heildartekjur voru kr. 716 millj. og höfðu hækkað um 10% frá fyrra ári. Gjöld fyrir afskriftir og fjámagnsliði voru kr. 689 millj og höfðu hækkað um tæp 6%. Þrátt fyrir tapið hækkaði eigið fé sveitarfélagsins og var í árslok kr. 431 millj.

Áætlun ársins gerði upphaflega ráð fyrir tekjuafgangi upp á kr. 4,9 millj. en útkomuspá sem gerð var í nóvember s.l. reiknaði með tapi upp á kr. 17,8 millj. og varð endanleg niðurstaða því örlítið betri en sú spá.

Helstu frávik frá áætlun voru að kr. 8 millj. halli varð af rekstri Grenilundar sem voru nokkur vonbrigði. Kjarasamningar og betri vinnutími hafa þar reynst kostnaðarsamari en áætlað hafði verið, án þess að tekjuauki frá ríkinu dygði á móti. Lífeyrisskuldbinding sveitarfélagsins hækkaði um kr. 13 millj. en hún er öll frá fyrri tíð. Ætla má að skuldbindingin hækki eitthvað áfram nokkur ár í viðbót, en vegi minna þegar fram í sækir. Verðbólga hækkaði fjármagnsliði, þó ekki verulega, enda var meira en helmingur langtímaskulda óverðtryggð lán í upphafi ársins 2022 sem kom sér vel.

Rekstur málaflokka gekk annars nokkuð vel og var almennt á eða nærri áætlun. Fræðslumálin eru langstærsti málaflokkurinn og kostaði rekstur hans kr. 249 millj. á árinu, og var með vel innan við 1% frávik frá áætlun.

Hætt var við sölu á íbúð á árinu sem áformað hafði verið. Þess í stað var íbúð sem losnaði auglýst til leigu með starfi á Grenilundi, og skilaði okkur góðri fjölskyldu á staðinn.

Efnahagur er áfram mjög sterkur, eiginfjárhlutfall í ársreiknikngi er 53,6%, lækkaði um 1,6 prósentustig á árinu. Skuldaviðmið skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga er 40,9% og hafði lækkað um 3,2 prósentustig á árinu sem er jákvæð þróun.

Eignfærð fjárfesting á árinu nam rúmum 25 milljkr., lántaka var upp á 25 milljkr. og afborganir langtímalána 14 milljkr. Helstu fjárfestingar voru í endurnýjun snyrtinga og andyris í Grenivíkurskóla, kr. 12,7 millj., tenging og frágangur nýrra vatnstanka við vatnsveituna, kr. 5,5 millj. og ýmis búnaður fyrir slökkviliðið, kr. 5 millj. Fjárfestingu í gatnagerð var frestað og mun koma til framkvæmda síðar, áætlað að hluta á þessu ári.

Horfur rekstrar fyrir þetta ár eru góðar og reksturinn að styrkjast áfram næstu árin ef fram heldur sem horfir. Undirliggjandi staða er einnig að styrkjast töluvert. Þannig hækkaði fasteignamat leiguíbúða hreppsins um rúmar 70 milljkr. á árinu og var fasteignamat íbúðanna um áramót orðið 106 milljónum kr. yfir bókfærðu verði þeirra. Eignir eru færðar á afskrifuðu kostnaðarverði og virðisauki eigna kemur þvi ekki fram í ársreikningi nema við sölu þeirra.

Sú mikla uppbygging sem er í gangi og framundan á Grenivík, mun skila sveitarfélaginu auknum tekjum þegar á þessu ári og enn frekar á næstu árum. Á það bæði við um fasteignagjöld af nýjum byggingum og auknum úsvarstekjum sem nýjir íbúar skila, en vænta má þó nokkurrar fjölgunar íbúa næstu árin. Ekki er þörf á kostnaðarsamri uppbyggingu innviða á móti, því horfir sveitarstjórn björtum augum til framtíðar.

Sveitarstjórn áformar að halda almennan íbúafund í haust þar sem farið verður betur yfir stöðu og horfur.