- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Mannkynið telur sig viti borið og á æðra tilverustigi en önnur dýr jarðarinnar. Við höfum sett okkur reglur til að geta lifað friðsamlega hvert með öðru, þjóð með þjóðum. Við uppfræðum hverja kynslóð svo vel sem við getum í þeirri von að mistök fortíðar verði síður endurtekin. Mannréttindi er hugtak sem okkur er orðið svo tamt að við teljum þau sjálfsögð og að fyrir því þurfi lítið að hafa að viðhalda þeim.
Það er því afar dapurlegt að upplifa stríðsátök enn á ný. Átök sem snerta okkur beint og fela í sér ógn við okkar friðsæla líf. Enn á ný virðist okkur einn maður með brenglaða heimsmynd og líklega einnig sjálfsmynd, hafa völd og beita þeim í vafasömum og óljósum tilgangi, í aðgerðum sem verða þúsundum að fjörtjóni. Engin leið er að sjá fyrir hvernig mál þróast, hvort okkar tilveru stafar bein ógn af, eða hvort áhrifin hér verða aðallega í formi móttöku flóttamanna og hækkaðs vöruverðs.
Mannréttindi eiga að vera öllum til handa, það þykir okkur eðlilegt í dag. Líf eru ekki metin eftir kyni, þjóðerni, trú, kynhneigð, litarhætti eða öðru sem greinir okkur í hópa. Vonandi verður innrás Rússa í Úkraínu aðeins hik á þróun mannkyns til friðsamari heims.
Þó við séum með hugann í austurhluta Evrópu um þessar mundir er þarft að líta sér nær og horfa líka í eigin barm. Í okkar litla hreppi býr fólk af mörgu og ólíku þjóðerni, lítill og skemmtilegur heimur. Sumir hafa verið hér lengi og hafa fyrir löngu fallið vel inn í okkar samfélag. Aðrir hafa verið skemur og eru enn að hluta framandi okkur og samfélagið þeim kannski lokað og óaðgengilegt vegna tungumálahindrana. Hver og einn er þó hluti af okkar samfélagi og saman myndum við heild. Hver og einn á skilið virðingu og umhyggju af hálfu okkar allra, ekki síður en þjóðir af hendi nágrannaþjóða.
Því er afar sorglegt að heyra að í vetur hefur aðeins borið á andúð í garð okkar erlendu íbúa. Hróp, barsmíðar á hús og jafnvel unnar skemmdir á eignum. Okkur þykir gott að ferðast um heiminn og jafnvel dvelja erlendis um lengri eða skemmri tíma. Þar er okkur almennt mjög vel tekið sem Íslendingum. Viljum við ekki að svo sé? Og viljum við ekki sýna okkar nýbúum sama viðmót, að þeir séu velkomnir í okkar samfélagi? Hvernig gengi okkur að halda uppi atvinnulífi og þjónustu ef okkar erlendu íbúa nyti ekki við?
Hér berum við fullorðna fólkið alla ábyrgð. Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Eigum við ekki að reyna að passa hvernig við tölum, að tala af virðingu um alla og færa umhyggju og kærleika inn í okkar samfélag? Nú skulum við öll ræða þessi mál á okkar heimilum. Sérstaklega við börnin og unglingana. Ræða hvernig samfélag við viljum. Hvort við getum sætt okkur við að ráðist sé að okkur, okkar eignum og gildum? Eða hvort við viljum byggja upp jákvætt samfélag sem ber umhyggju fyrir öllum, að borin sé virðing fyrir mannréttindum í verki, ekki bara í orði.
Við höfum undanfarin ár staðið í ströngu við að verja okkar samfélag út á við. Ekki má gleyma að verja heiðarleika, góð samskipti, góð gildi og réttindi íbúa inn á við. Þegar mennskan er farin, þá er ekkert eftir.
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri