Samrómur - Grenivíkurskóli sigurvegari

Frá verðlaunaafhendingu á Bessastöðum
Frá verðlaunaafhendingu á Bessastöðum

Grenivíkurskóli bar sigur úr býtum í C-flokki í lestrarkeppni grunnskólanna sem Samrómur stóð fyrir, en keppnin stóð yfir frá 18.-25. janúar. Úrslitin voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær og var það Valdimar Víðisson, fyrrverandi skólastjóri Grenivíkurskóli, sem tók á móti viðurkenningarskjali og verðlaunum fyrir hönd skólans. Nemendur, starfsfólk, aðstandendur og velunnarar skólans lásu samtals 129.075 setningar á einni viku sem verður að teljast ótrúlegur árangur. Einungis einn skóli á landinu las fleiri setningar, Smáraskóli, en sá skóli sigraði í B-flokki.

Keppnin í C-flokki var gríðarlega spennandi, en frá fyrsta degi var ljóst að tveir skólar þar voru staðráðnir í að sigra, Grenivíkurskóli og Höfðaskóli á Skagaströnd. Skólarnir skiptust á um að hafa forystu og ljóst að það var mikil hvatning fólgin í þessari spennandi keppni á milli skólanna. Svo fór að Grenivíkurskóli náði að síga nokkuð fram úr á síðustu dögum keppninnar og endaði með ágætt forskot í sínum flokki. Skólinn fékk að launum viðurkenningarskjal ásamt Sphero Bolt forritunarkúlum sem munu vafalaust nýtast vel.

Samrómur stóð fyrir keppninni, en á heimasíðunni samromur.is er verið að safna saman raddsýnum landsmanna með það fyrir augum að efla máltæknilausnir á íslensku og kenna tækjum og tólum að tala og skilja íslensku í hinum stafræna heimi. Sannarlega þarft framtak og gaman að geta lagt þessu verkefni lið.

Við óskum Grenivíkurskóla til hamingu með glæsilegan árangur og þá ber að þakka öllum þeim sem tóku þátt í keppninni fyrir hönd skólans kærlega fyrir sitt framlag. Þetta var afar spennandi og skemmtileg vika og frábært að sjá samheldnina og þrautseigjuna í okkar ágæta samfélagi.