Slepping sauðfjár

Hvalvatnsfjörður
Hvalvatnsfjörður

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd hefur metið aðstæður og fundað um upprekstrartíma.  Þrátt fyrir mjög kaldan og gróskulítinn maí leggur nefndin til við sveitarstjórn að heimilt verði að sleppa fé í ógirt heimalönd og almenninga Grýtubakkahrepps 12. júní. Því til rökstuðnings má nefna snjóléttan vetur og mjög hagstæða veðurspá næsta hálfa mánuðinn. Nefndin vill að sama skapi hvetja bændur til að gæta hófs við upprekstur og sleppingar og að bændur láti vita sín á milli hvenær þeir hyggist fara með fé sitt hvort heldur sem er rekstur eða keyrslu svo þeir séu ekki að fara á sama tíma.

Sveitarstjórn hefur samþykkt tillögu nefndarinnar.

Því er beint til bænda að huga vel að viðhaldi girðinga og tryggja eftir föngum að fé sé þar sem því er ætlað að vera og ekki annarsstaðar.  Í sumar verður haldið áfram með girðingu ofan vegar inn að Víkurskarði og markmiðið að þjóðvegir í hreppnum verði að lokum lausir við sauðfé.