Þönglabakkamessa um borð í Húna II

Sr. Kristján Valur Ingólfsson og sr. Bolli Pétur Bollason
Sr. Kristján Valur Ingólfsson og sr. Bolli Pétur Bollason

Breyting varð á Þönglabakkamessunni á sunnudaginn, því þegar Húni II ætlaði að halda út fjörð brast á norðan hvassviðri og sýnt að ekki yrði hægt um að lenda í Þorgeirsfirði. Var brugðið á það ráð að messa um borð í Húna II við bryggjuna á Grenivík. Fór athöfnin þar vel fram og voru um 70 manns viðstaddir.
Sr.Bolli fjallaði um lífið og söguna, tengsl fortíðar við okkar líf í dag og er við hæfi að birta hér predikunina sem var svohljóðandi:

 

Kæri söfnuður!

Þessi eyðibyggð er fögur, það verður ekki frá henni tekið. Þess vegna er ráð að eiga samfélag hér í Jesú nafni því guðdómur býr í fegurðinni. En af hverju býr enginn maður hér lengur?

Ég dróst eitt sinn um stund að riti Jóhannesar Bjarnasonar Fagurt er í Fjörðum. Jóhannesi þessum er lýst af  Símon Dalaskáldi sem yrkir um hann ungan:

„Baldvin Jóhannes Bjarnason

á Birningsstöðum

yngismanna er í röðum,

yndi veitir stúlkum glöðum.”

 

„Skýr og góður

skemmtir móður sinni,

runnur skjalda, ljúft ég les,

litli Baldvin Jóhannes.”

Jóhannes fæddist sem sagt á Birningsstöðum í Ljósavatnsskarði og ólst upp í Grímsgerði í Fnjóskadal. Hann fékkst við kennslu í Flatey á sínum tíma og hreppstjórastörf svo eitthvað sé nefnt.

Í fyrrgreindu riti, sem telst ekki fullkomið, segir Jóhannes helstu skýringar þær á því að byggð fór í eyði í Fjörðum að prestur hætti að vera hér heimilisfastur. Þá er kannski ekki svo galið að í stað þess að ég flytji suður, flytji ég bara hingað og söfnuður fylgi í kjölfarið.

Önnur höfuðástæðan að mati Jóhannesar var samgönguleysið, ferðir landspósts lögðust niður þegar prestlaust varð í Fjörðum, Flóabátur kom stöku sinnum en fylgdi engri áætlun og svo var ekkert símasamband og einangrunin óbærileg.  Segið svo að presturinn skipti ekki máli, maður finnur hreinlega til sín.

Presturinn fór og allir með, eftir sitja minningar, sumar eflaust ljúfsárar, þakklæti og trú. Og það hlýtur að vera meginmarkmiðið með þessu samfélagi hér við Þönglabakkamessu að leggja rækt við þá þætti, miðla fortíðinni, að hún minni okkur t.d. á mikilvægi góðra samgangna og símasambands svo byggð megi blómstra og dafna í landinu. 

Kveðskapur um horfna tíð og byggð í takt við Næturljóð úr Fjörðum minnir sömuleiðis á það allt.

,,Yfir í Fjörðum allt er hljótt

eyddur hver bær, hver þekja fallin."

Það er ljóð sem er orðið að einkennisljóði Fjarða og þjóðsöng í Laufásprestakalli. Og lýsir á seiðmagnaðan hátt stemmningu eyðibyggðar en einnig fortíðarþrá til hennar og anda þess sem var en er nú horfið. 

Ég bauð höfundi Næturljóðsins Böðvari Guðmundssyni rithöfundi að vera með okkur síðast þegar hér átti að messa en ekkert varð úr messu auk þess sem Böðvar átti heldur ekki heimangengt.

Böðvar sendi mér hins vegar skemmtilegt og fróðlegt bréf þar sem hann rakti í stuttu máli kynni sín af Fjörðum og þar af leiðandi tilurð þessa ljóðs. Hann fór fyrst í Fjörður 1978 þá búsettur á Akureyri og kenndi þar við Menntaskólann.

Þeir gengu þrír saman hann og Arnar Jónsson leikari og nýsjálenskur vinur þeirra Andy Dennis að nafni frá Brettingsstöðum á Flateyjardal, yfir í Hvalvatnsfjörð og síðan í Þorgeirsfjörð og þaðan til Keflavíkur og yfir Uxarskarð og Látraströndina heim.

Eftir þeim biðu tveir nemendur Böðvars úr Menntaskólanum, þeir Björn Vigfússon og Haraldur Ingi Haraldsson, sofandi í fólksvagni Böðvars sem hann hafði beðið þá um að aka sem lengst þeir gætu út á Látraströnd. Það mætti segja mér að þeir hafi ekki verið ósnortnir eftir ferðalagið. Ég segi fyrir mig að ég verð alltaf svolítið meyr þegar ég geng um hlöð eyðibýla þar sem hefur verið mannlíf, þar sem einhverjir hafa átt gleðistundir, verið ástfangnir og líklegast laumast á stefnumót við piltinn eða stúlkuna á næsta bæ.

Hér hefur fólk líka tekist á við lífið og lífsbaráttuna, einsemd og stormviðri en líka kyrru og þakklæti. Það er þessi andi liðinna tíma sem situr eftir á stöðum sem eytt sinn voru fullir af lífi en þögnin hefur yfirtekið sem mér finnst svo magnað að fanga og upplifa.

Og Böðvar tekur ljóslega undir þetta í bréfinu góða og svo talar hann um hvað það hefði verið sérstök tilfinning að koma hingað í Þorgeirsfjörð, koma á kirkjustaðinn Þönglabakka og ganga á milli leiðanna sem engin nöfn höfðu.

„Grær yfir leiði, grær um stein

gröfin er týnd og kirkjan brotin.”

Í þessa ferð fór Böðvar með visst veganesti, því þegar hann var barn í Hvítársíðunni heyrði hann á tal fullorðna fólksins þegar það var að fjalla um eyðingu Flateyjardals og Fjarða og hann mótaðist af því hvernig það talaði um þá atburði og sorgina man hann enn og söknuðinn í umtali þess.

Vissulega væri hægt að ganga hér um firði og dali og njóta fagurs umhverfis en það hlýtur að gefa meiri dýpt að þekkja sögurnar á bak við fjöllin, tóftir, bak við örnefni, og ýmislegt það sem fyrir augu ber, jafnvel einn drumbur eða annað það sem rekið hefur á fjörur geymir sína sögu. 

Svo lifnar allt við þegar fólk heyrir sögurnar og ferðin verður heldur innihaldsríkari fyrir vikið, ekki satt? Það þarf að miðla þessum sögum til ungu kynslóðarinnar, óvíst að hún geti „gúgglað” þeim þótt ótrúlega margt finnist þar.

Mér finnst það hlutverk hverrar kynslóðar að bera áfram frásagnir af forfeðrum okkar og formæðrum, menningu þeirra og siðum og hvað þau lögðu á sig til að byggja upp bæi og samfélög og leggja grunninn að því sem við eigum saman í dag, enn má læra af því, þeim fórnum sem færðar voru, eljunni, dugnaðinum og lífsbaráttunni. 

Og þetta eru sögur sem þurfa að heyrast og upplifa á staðnum til að veruleikinn að baki þeim verði raunverulegur, tæpast nóg að finna þær á internetinu þ.e.a.s. ef þær finnast þar, enda getur internetið aldrei miðlað því sama og að sjá með eigin augum staðhætti og umhverfi.

Það er t.d. gaman að lesa frásögn Böðvars í umræddu bréfi af því þegar þeir félagarnir forðum voru að leggja á ráðin hvernig þeir skyldu komast yfir ósinn í Hvalvatnsfirði, þá var Ingi í Ártúni ekki búinn að smíða brúna góðu yfir Hvalvatnsá, þeir tóku eftir braki og stórviðum sem lágu um allt í fjörunni. 

Böðvar las sér til um það eftir að heim var komið að þarna hefði strandað timburskip, rússneskt síldveiðiskip Tungus að nafni og að það hefði strandað þarna á sjötta áratugnum. Allsérstaka sögu mátti lesa af því strandi.

Skipbrotsmenn komust lifandi á land og leituðu skjóls í uppistandandi kofa en þegar björgunarfólk kom á vettvang vildu þeir ekki láta bjarga sér fyrr en leyfi væri fengið til þess frá höfuðstöðvum kommúnistaflokksins í Moskvu. Rússneska sendiráðið í Reykjavík var virkjað í málinu og fékk grænt ljós.

Málalyktir voru ekki frekari af þessu, en Böðvar bætir því við og selur það ekki dýrar en hann keypti, að allt þetta sumar hefði mátt kaupa rússneskar sígarettur í sjoppunni á Húsavík.

„Bátur í vör með brostna rá

bíður þar sinna endaloka." 

Og talandi um sögurnar hvað þær eru mikilvægar, þá sagði Jesús oft sögur og það út í óbyggðum þangað sem hann hélt með söfnuð sinn og útskýrði leyndardóma lífsins einmitt með því að nýta sér umhverfið og það sem fyrir augu bar.

Við þekkjum margvíslegar líkingar úr náttúrunni sem Jesús notaði í guðspjöllunum sbr. mustarðskornið sem maðurinn sáði í jurtagarð sinn, það óx og varð tré og fuglar himins hreiðruðu sig í greinum þess. 

Og líkt er um himnaríki  og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn og líkt er himnaríki fjársjóði sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi.

Í fögnuði sínum fór hann seldi allar eigur sínar og keypti akur þann. Þetta er merkilegur punktur. Sonur Guðs nýtti sér sögur og það sem hann hafði og þekkti úr umhverfi sínu til að lýsa himnaríki, hann nýtti sér reynslu sína og upplifanir úr jarðnesku lífi, reynslu kynslóðanna, og færði í sögur. 

Leyndardómar lífsins og það sem við megum læra af þeim berast okkur í sögum. Myndum við þá ekki heldur sjá himnaríki fyrir okkur sem upplifun, sem reynslu, sem líðan, sem visst hugarástand? 

Ósjaldan sjáum við það þó fyrir okkur sem heillandi landsvæði, þar sem grundirnar eru grænar, vötnin spegilslétt, himnesk kyrra, ekkert verra að hugsa himnaríki  þannig, eitthvað sem veitir sálinni ró og vellíðan, eins og það að liggja hér í Þorgeirsfirði við læk, hlusta á vængjahljóð hrossagauksins í fjarska um leið og golan kyssir kinn.

Og svo er enn ein birtingarmyndin jafnvel sú sem fram kemur í sögu dagsins um ráðsmanninn kæna en það er vissulega saga sem minnir okkur á að deila kjörum saman eins og fólk gerði í persónulegu samfélagi sem lifði aðeins á landsins gæðum.

Þannig var það hér í Fjörðum og þá hafði sú erfiðisvinna og lífsbarátta sterk áhrif á allt gildismat að því leytinu til að það sem þú uppskarst var ekki eitthvað sem þú einn gast eytt í hvað eina sem þú vildir heldur fól það að uppskera í sér ríka ábyrgð gagnvart náunganum, að koma honum til hjálpar ef  hann uppskar ekki með sama hætti.

Við erum að tala um samhjálpina, og slík ábyrgð var gagnkvæm þannig að fólk hjálpaði hvert öðru eftir því hvernig stóð á, það þótti hinn eðlilegasti hlutur.  Íslenska þjóðin má alltaf læra af þessu, og ekki missa sjónar af góðum gildum genginna kynslóða.

Við verðum að spyrja okkur jafnfámenn þjóð og við nú erum hvort við getum ekki haldið áfram að sameinast um þetta eins og við gátum sameinast t.a.m. um fótboltalandsliðið okkar.

Það er einmitt í samfélaginu, samvitundinni og meðvitundinni um okkar eigin sögu, uppruna og lífsbaráttu sem við græðum hvert annað og byggjum upp. Þess vegna er mikilvægt að koma hér saman í Þorgeirsfirði, til að við gleymum ekki hver við erum og hvað þurfti til að koma okkur á þann stað sem við erum í dag.

,,Grær yfir allt sem áður var

ástin mín hvílir nú þar."

Við græðum líka hvert annað með því vitja þeirra sem eru liðnir og hvíla hér nú og þakka fyrir líf þeirra og tilvist. Megi góður Guð vaka yfir þessum helga stað, minningunum sem hann varðveitir og gefa okkur öllum löngun til að þekkja og kannast við þá sögu sem hann geymir og þannig halda lífi í þeirri sammannlegu reynslu sem varð til á meðan fólk bjó hér og háði sína baráttu.

Okkar er þakklætið fyrir að geta komið hingað á fallegum sumardegi og andað að okkur liðnum tíma og upplifað um leið þakklæti fyrir það sem við höfum og eigum saman sem þjóð og samfélag. Þar er fjársjóð að finna sem mölur og ryð fá aldrei eytt.