- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Ráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem kveður á um að lágmarksstærð sveitarfélaga skuli verða 1000 íbúar eigi síðar en árið 2026. Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hefur sent inn í samráðsgátt stjórnvalda eftirfarandi umsögn:
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps bókaði eftirfarandi á fundi sínum þann 2. september s.l.:
„Um meginmarkmið tillögunnar segir svo í henni sjálfri:
„Við mótun áætlunarinnar verði ávallt gætt að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga.“
Einnig segir í henni um markmið og áherslur að:
„Sveitarstjórnarstigið verði hornsteinn lýðræðis og mannréttinda.“
Þá á tillagan að miða að því:
„... að styrkja lýðræðislega þátttöku íbúa og auka virkni og aðkomu þeirra að ákvarðanatöku og stefnumótun.“
Fyrir því að ganga þvert gegn þessu grunnstefi tillögunnar þyrftu að vera ríkir hagsmunir og mjög sterk rök. Svo er ekki.
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps er sammála þessum megin markmiðum og hafnar alfarið lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga.“
Til viðbótar vill sveitarstjórn í þessari umsögn benda á eftirfarandi atriði:
Minni sveitarfélögum hefur beint og óbeint verið haldið frá þeirri vinnu sem að baki tillögunni býr. Þau hafa ekki átt fulltrúa í starfshópum, lítið verið gert með þeirra athugasemdir t.d. á þeim kynningar/samráðsfundum sem haldnir hafa verið og í kynningu á samráðsferli grænbókar er ekki nefnt að andstaða og efasemdir komu fram um lögþvingaðar sameiningar í fleiri umsögnum. Sama á við greinargerð með þingsályktunartillögunni, þar er allt slíkt látið hverfa sem aldrei hefði verið fram sett. Það er alvarlegt mál að Alþingi fái ekki réttar upplýsingar í greinargerð með svo mikilvægri tillögu. Þá má nefna að stjórn Sambandsins er skipuð 11 fulltrúum sem allir koma frá 20 stærstu sveitarfélögunum.
Á nýafstöðnu landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga beittu stærri sveitarfélögin aflsmunum með fjölda þingfulltrúa, og töldu sér sæma að samþykkja að hin minni skyldu annað hvort sameinast innbyrðis eða renna undir þau stærri. Til stuðnings var þeim lofað stórfé úr jöfnunarsjóði. T.d. fengjust 797 mkr. við sameiningu Skagafjarðar og Akrahrepps, sem þó fylgir nánast enginn kostnaður. Nefna mætti fleiri svipuð dæmi. Til viðbótar fengju hin stærri í mörgum tilfellum vænan heimanmund frá þeim minni í formi eigna þeirra.
Stuðningur sumra minni sveitarfélaga helgaðist líka af því að þau eiga þegar í viðræðum um sameiningu. Það er sérstakt að slík sveitarfélög, sem vilja jafnvel alls ekki sameinast stórum nágranna sínum sjálf, styðji tillögu sem þvingar önnur lítil sveitarfélög í þá stöðu.
Það er einnig sérstakt að samþykkt þings sem þannig er fengin, sé blygðunarlaust kynnt sem vilji sveitarfélagastigsins í heild, þó gangi þvert gegn vilja mikils meirihluta þeirra sveitarfélaga sem tillagan snertir með beinum hætti.
Verður að treysta á að Alþingi beri meiri virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti íbúa landsins. Íbúarnir vita mæta vel hvað er þeim fyrir bestu og munu styðja sameiningar þar sem það er skynsamlegt.
Hins vegar gengur það þvert gegn öllum markmiðum tillögunnar að þvinga fram sameiningar sveitarfélaga, þar sem fyrirséð er að þær muni ná yfir mjög stór landssvæði, eða að ný jaðarsvæði í stórum sveitarfélögum verða til og þar sem íbúar eru sannfærðir um að sameining muni leiða til skertra lífskjara og lakara þjónustustigs. Það er algerlega óásættanlegt að Alþingi samþykki slíka tillögu í nafni lýðræðis og undir því fororði að styrkja eigi búsetu út um landið, þegar áhrifin á sumum svæðum verða þveröfug.
Ráðherra hafnaði því að bjóða litlu sveitarfélögunum til fundar og heyra þeirra sjónarmið. Við heitum á Alþingi að hlusta eftir sjónarmiðum minni sveitarfélaga, sem tillagan snertir strax með beinum hætti. Það er ófært að láta góð markmið og önnur atriði sem í tillögunni eru, falla í skuggann af þeirri valdbeitingu hinna stærri sem að framan er lýst. Rökin fyrir 1000 íbúa lágmarki finnast hvergi, Alþingi má aldrei setja slík mörk bara til að gera eitthvað.