- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Nú hefur samkomubann verið þrengt niður í 20 einstaklinga. Rétt að koma nokkrum atriðum á framfæri á þeim tímapunkti.
Íþróttamiðstöð hefur nú alveg verið lokað, á það jafnt við um líkamsrækt, sundlaug og íþróttasal.
Skólahald heldur enn áfram með sama sniði og undanfarna daga, sama á við leikskólann. Foreldrar eru beðnir að fylgjast vel með tilkynningum þar sem breytingar geta orðið hvenær sem er. Þá er rétt að minna á að skólaskylda hefur verið afnumin og foreldrum frjálst að hafa börnin heima kjósi þeir svo. Kennarar sinna fjarkennslu og gengur vel, þó reyni nokkuð á. Sérstaklega er þetta áskorun fyrir yngri börnin og reynir á samstarf við foreldra.
Rétt er að upplýsa að ekki verða rukkuð vistunargjöld á leikskóla fyrir þann tíma sem börn eru tekin alveg heim og engin réttindi tapast til þjónustu. Á sama hátt verður ekki rukkað fyrir mötuneyti í skóla fyrir þann tíma sem börnin eru heima.
Fyrir rekstraraðila sem kunna að lenda í skyndilegu tekjufalli, er í boði að fá frestað 2 – 3 gjaldögum af fasteignagjöldum aftur fyrir. Þeir sem óska slíks eru beðnir að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins. Ekki hefur verið ákveðið um frekari aðgerðir, en fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um viðspyrnu sem kann að leiða af sér frekari aðgerðir af hálfu sveitarfélagsins til að styðja við rekstraraðila í gegnum þessa niðursveiflu.
Ákveðið hefur verið að bjóða ellilífeyrisþegum og öryrkjum upp á einn frían snjómokstur á bílastæði. Vonandi geta sem flestir haft gagn af því fyrir vorið. Mokstur er pantaður hjá Áhaldahúsi, einnig hægt að hafa sambandi við skrifstofu.
Sorphirða er óbreytt. Þeir sem eru í sóttkví og þeir sem lenda í einangrun eru beðnir að ganga sérstaklega vel frá sorpi og endurvinnslu efnum, fylgja settum reglum og leiðbeiningum og alls ekki að yfirfylla tunnur. Mikilvægt er að starfsmenn þurfi ekki að handleika sorp, heldur geti hellt úr tunnum í bíl án snertingar við það sem í þeim er. Endurvinnsla er nú með þeim hætti að allt endurvinnsluefni er vélflokkað hjá þjónustuaðila en handflokkun hefur verið hætt að sinni. Hluti fer tímabundið í urðun en mikilvægt er að flokkun og frágangur sé með sama hætti og verið hefur, íbúar eru beðnir að vanda sig ekki síður en hingað til.
Heimaþjónusta sveitarfélagsins er enn virk, en þó hafa þó nokkrir afþakkað þjónustu í bili.
Íbúar eru beðnir að vera ekki feimnir við að hafa sambandi við skrifstofu og leita upplýsinga ef eitthvað er. Jafnframt ef sveitarfélagið getur gert eitthvað til að létta undir, einkum með þeim sem eru eldri og hafa kannski ákveðið að halda sig heima um sinn.
Minna má á heimsendingarþjónustu Jónsabúðar, sem er gott og þarft framtak. Einnig sendir Fagrabæjarfólk, Milli fjöru og fjalla, heim til viðskiptavina.
Sr. Gunnar er ávalt boðinn og búinn að heyra í íbúum sem þess óska, þá má minna á hugvekjur hans á Facebook sem hafa fallið í góðan jarðveg. Símanúmer hans er að finna í tilkynningum á íbúasíðu.
Loks er minnt á upplýsingasíðuna www.covid.is þar sem finna má svör við ansi mörgu sem snýr að veirunni.
Sveitarstjórn sendir íbúum baráttukveðjur á þessum óvenjulegu tímum og stefnir að því að við komum okkar góða samfélagi í gegnum þetta svo vel sem kostur er. Eru öllum færðar bestu þakkir fyrir liðlegheit og óeigingjarnt framlag, starfsmönnum sem íbúum.