- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Við áramót er við hæfi að staldra við, líta til baka og horfa einnig fram á veginn. Liðið ár er með þeim eindæmum að við sem þó erum eldri en tvævetur höfum ekki kynnst öðru eins. Að sönnu hafa komið slæmir vetur áður, jarðhræringar, snjóflóð og ýmsar hamfarir, en þegar við bætist veira sem fellir milljónir fólks og setur heiminn að stórum hluta í hægagang og kyrrstöðu fer árið út yfir flest.
Þessar aðstæður reyna á margt sem kalla má grunngildi í samfélagi manna. Hvar endar réttur einstaklinga til athafna og hver er á móti réttur til lokana í þágu heildarinnar og í þágu þeirra sem veikari eru fyrir í samfélaginu? Um margt hefur tekist vel til og staðan á Íslandi er betri, já margfalt betri en í nágrannalöndum okkar. Fyrir það megum við vera þakklát. Vafalaust hafa verið gerð einhver mistök einnig og langt í frá að allir erfiðleikar séu að baki.
Við þessar aðstæður sjá menn sín réttindi með misjöfnum hætti, misskipting kemur upp á yfirborðið bæði nær og fjær. Margir hafa fordæmt þá ráðherra sem reglur setja en hafa á köflum lent í baksi með að framfylgja þeim á sjálfum sér. Oft þykir okkur sem reglur séu meira fyrir aðra, fremur en okkur sjálf, það er þekkt hér á Grenivík líka. Sömu lög og reglur gilda hér og annarsstaðar, t.d. um notkun vélknúinna ökutækja, rétt að hver líti í eigin barm í þeim efnum.
Ekki síður reynir á samfélag þjóða, samskipti, samræmingu aðgerða og viðbragða. Það hefur verið eftirtektarvert og ótrúlegt að fylgjast með samvinnu þjóða sem fyrirtækja og þeim árangri sem náðst hefur við þróun bóluefna á mettíma. Nú um stundir reynir hins vegar á misskiptingu og aðstöðumun þegar kemur að réttlæti við dreifingu þeirra. Við gagnrýnum ráðherrana fyrir sérgæsku, en gerum á sama tíma kröfu um að þeir tryggi okkur bóluefni í krafti auðlegðar landsins, fyrr en almenningi í fátækari löndum stendur til boða.
Þó árið hafi sent okkur áskoranir stórar, þá þurfum við ekki að kvarta mikið hér í Grýtubakkahreppi. Eftir harðan vetur fengum við ágætt sumar, fleiri íslendingar heimsóttu okkur en áður og atvinnuleysi var í lágmarki. Við bættum heldur í varðandi sumarstörf og unga fólkið okkar fékk störf eftir þörfum. Framkvæmdir voru miklar, Ægissíða var malbikuð, en á henni var elsta malbikið á Grenivík. Sjálfsagt hefði gamla bikið getað dugað einhver ár árfram, en með hverju ári sem leið óx hætta á skemmdum í undirlagi sem hefði leitt til mikið kostnaðarsamari viðgerða síðar.
Þá voru stórframkvæmdir í sundlauginnni, ný vaðlaug, stór heit setlaug og kaldur pottur. Glæsileg framkvæmd sem mun vel gagnast til framtíðar. Hún varð viðameiri og dýrari en upphaflega var að stefnt, bæði vegna nýrra reglugerða sem útilokuðu einfaldari lausnir á köflum, en einnig varð niðurstaðan að nota varanlegri efni en áformað hafði verið, svo sem vandaðar flísar. Búnaður allur er fyrsta flokks, notendavænt skjástýrikerfi er í tölvu og væntum við þess að allt skili þetta sér í minna viðhaldi og langri endingu. Einnig bættist vandaður kaldur pottur við sem gerir framkvæmdina heildstæðari og enn notadrýgri fyrir íbúa og gesti. Vegna umfangs framkvæmda við sundlaugina var öðrum minni framkvæmdum frestað á móti. Þá var malbikið á Ægissíðu nokkuð undir áætluðum kostnaði, hagstæð tilboð fengust í það verk.
Rekstur sveitarfélagsins er í járnum, þar hefur þrengt að eins og víðar í þessu árferði. Það er bagalegt að þar ber ríkið nokkra ábyrgð, rekstur hjúkrunarheimila hefur þyngst mikið síðustu misseri, en ríkið á að fjármagna þann málaflokk samkvæmt lögum. Fjögur sveitarfélög sögðu á síðasta ári upp samningi við ríkið um rekstur sinna heimila, segir það nokkuð um stöðuna. Grenilundur hefur ekki farið varhluta af þessu ástandi en sveitarstjórn leggur áherslu á að halda þessari góðu þjónustu á staðnum. Við eigum í stöðugum viðræðum við ríkið um aukin og leiðrétt fjárframlög en því miður er þar lítill hljómgrunnur enn. Trúi ég að á þessu ári muni þó draga til einhverra tíðinda í þessu máli, vonandi í þá átt sem við getum vel við unað.
Við búum svo vel að þó rekstur sé þungur um sinn, er efnahagur afar traustur og staða sveitarfélagsins sterk og geta til að veita íbúum góða þjónustu til framtíðar. Styrking sveitarfélagastigsins með íbúalágmarki og sameiningum sveitarfélaga hefur verið á stefnuskrá stjórnvalda síðustu árin, ekki þarf að hafa mörg orð um okkar stöðu í því máli. Við höfum lagt höfuðáherslu á rétt íbúa til að ráða sínum málum sjálfir í þessum efnum. Hefur kannski á köflum farið óþarflega mikil vinna og orka í þetta mál, en hún hefur skilað sér í miklum stuðningi við okkar málstað.
Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 18. desember s.l. studdi töluverður meirihluti sveitarfélaga tillögu sem við ásamt 19 minni sveitarfélögum öðrum, lögðum fram. Hún kvað á um að stefnt skuli að eflingu sveitarfélaga með sameiningum og stækkun þeirra, en íbúalágmarki hins vegar hafnað. Sjálfstjórnarrétt og lýðræði íbúa beri að virða óháð stærð sveitarfélaga. Stuðningurinn var mjög ánægjulegur eftir að nær öll stjórn Sambandsins lagðist gegn tillögunni og formaður þess talaði mjög ákveðið gegn henni.
Vegna mikils misvægis atkvæða tókst stóru sveitarfélögunum þó að fella tillöguna naumlega. Þannig hefur hvert lítið sveitarfélag 1 atkvæði á landsþingi, en t.d. Reykjavík 16 og Akureyri 5 atkvæði. Því hefur verið haldið fram síðustu árin af formanni Sambandsins og fleirum, að það væri almennur vilji sveitarfélagastigsins að sett yrði á 1000 íbúa lágmark í sveitarfélögum. Það hefur nú verið hrakið að fullu, meirihluti sveitarfélaga er á móti því og ólíklegt að málið fari lengra að sinni.
Ljóst er að rekstur Grýtubakkahrepps verður krefjandi á þessu ári. Þó rekstraráætlun geri ráð fyrir örlitlum afgangi má ekkert út af bera. Hvernig úr rætist með rekstur Grenilundar mun ráða úrslitum um hvort endar ná saman. Við treystum á að réttlætið ná þar fram að ganga og munum ekki draga af okkur í að vinna að því að fá ríkið til að standa við sitt og fjármagna reksturinn með þeim hætti sem vera ber.
Framkvæmdir verða viðaminni en á síðasta ári, en nokkrar þó. Afar góð tímamót verða í sumar þegar lokið verður við fjárgirðingu ofan vegar frá Fnjóskárbrú inn að Víkurskarði. Með góðri samvinnu við Vegagerð og bændur í hreppnum eigum við því eftirleiðis að geta búið við búfjárlausan þjóðveg. Það er vonum seinna og má kalla bæði öryggismál og dýraverndarmál, já eðlilegan nútíma.
Nokkur viðhalds- og endurnýjunarverkefni eru áformuð á húsnæði Grenivíkurskóla á næstu árum. Einnig eru áform um að bæta skólalóðina. Fyrsta skref í því er að leita til barnanna sjálfra um hugmyndir að hönnun lóðarinnar, það er spennandi verkefni sem við hlökkum til að sjá hvernig gengur fram.
Þá er að hefjast uppbygging á lúxushóteli, Höfði Lodge, sem við væntum að gefi nýjar víddir í okkar samfélag. Sveitarfélagið mun leggja í nokkrar framkvæmdir hjá vatnsveitunni á næstu misserum, að hluta vegna hótelsins en einnig munu þær vonandi koma þorpinu til góða með tryggara vatni. Sveitarstjórn á einnig í viðræðum við Norðurorku um þróun hitaveitunnar. Það er grundvallarmál að hitaveitan geti séð fyrir því vatni sem þarf til áframhaldandi vaxtar samfélagsins.
Með uppbyggingu í atvinnulífi vex almenn bjartsýni og trú á framtíðina. Það er afar ánægjulegt að sjá einstaklinga fara að byggja íbúðarhús á ný í hreppnum og stefnir í áframhald á því á þessu ári. Sveitarfélagið hefur byggt nokkuð af íbúðum síðustu árin, en ljóst að uppbygging atvinnulífs kallar á meira íbúðarhúsnæði og leiðir væntanlega til íbúafjölgunar á næstu árum. Það tryggir síðan rekstrargrundvöll skóla og leikskóla, viðheldur samfélaginu okkar svo það megi vel dafna til framtíðar.
Í svo smáu samfélagi reynir á samstarf, reynir á samskipti þegar nálægð er mikil. Veiran er enn á fullri ferð rétt handan við hornið og áfram er þörf á samstöðu og varkárni til að forða lífum og heilsu. Við höfu í raun verið mjög heppin til þessa en ekkert má út af bera. Við berum öll ábyrgð á eigin háttum, á því hvernig við högum okkur við þessar aðsæður þannig að til farsældar leiði.
Hitt er ekki minna mál, hvernig við högum samskiptum okkar almennt, hvernig við sýnum unga fólkinu gott fordæmi í lífsháttum, samskiptum og umtali bæði um náungann og samfélagið. Stöndum saman að því að gera gott samfélag enn betra.
Megi árið verða öllum til farsældar og gleði.
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri